Sigurður Hannesson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Sigurður starfaði áður hjá Kviku, en sagði upp því starfi fyrr í dag. Hann tekur við starfinu af Almari Guðmundssyni sem lét af störfum fyrir skömmu.
Sigurður hefur sinnt margvíslegum störfum á fjármálamarkaði undanfarin tíu ár, nú síðast sem framkvæmdastjóri eignastýringar Kviku banka. Sigurður var varaformaður framkvæmdahóps um losun fjármagnshafta og kynnti áætlun stjórnvalda um losun þeirra árið 2015.
Þá var Sigurður formaður sérfræðingahóps um Leiðréttinguna 2013. Auk starfa á fjármálamarkaði hefur Sigurður meðal annars verið prófdómari við verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands og stundað kennslu við Háskóla Íslands og Oxford háskóla. Sigurður er stærðfræðingur að mennt með doktorspróf frá Oxford háskóla og er með próf í verðbréfamiðlun.
„Samtök iðnaðarins bjóða Sigurð Hannesson velkominn til starfa. Við erum ánægð að fá svo öflugan liðsmann sem Sigurður er í hóp kraftmikilla starfsmanna SI og væntum mikils af samstarfi okkar við hann,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka Iðnaðarins í fréttatilkynningu.