OECD leggur meðal annars til að afnema undanþágur á virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustunnar í nýbirtri skýrslu sinni um Ísland. Þetta kom fram á blaðamannafundi Mari Kiviniemi, aðstoðarframkvæmdastjóra OECD, og Benedikt Jóhannessyni, fjármálaráðherra, fyrr í dag.
Á blaðamannafundinum kynnti OECD niðurstöður sínar úr skýrslu um efnahagsástandið á Íslandi, sem framkvæmd er á tveggja ára fresti. Meginniðurstöður voru þær að aðstæður á Íslandi væru heilt yfir góðar, þótt hætta væri á ofhitnun í hagkerfinu.
Mari sagði stórmerkilegur viðsnúningur hafa átt sér stað á Íslandi. Hagvöxtur hér á landi sé sá mesti meðal allra OECD-landa, meðal annars vegna jákvæðra ytri aðstæðna og gríðarlegum vexti í ferðamannaiðnaðinum. Lífsskilyrði séu hærri nú en í góðærinu fyrir hrun og jafnframt hafi jöfnuður haldist mikill samhliða vextinum.
Íslendingar hafi náð að lækka skuldastöðu sína gríðarlega mikið, gjaldeyrishöftunum hafi verið aflétt og nú sé hreina fjárfestingastaðan okkar orðin jákvæð, þannig að við séum byrjuð að greiða niður skuldir í stað þess að safna þeim.
Auglýsing
Hætta á ofhitnun
Hins vegar væru margar áskoranir fram undan, til dæmis sé nauðsynlegt að Íslendingar vinni meira í átt að sjálfbærum hagvexti. Undanfarin ár hafi verið útgjaldaaukning í fjármálum hins opinbera, en draga ætti úr henni þar sem hún geti stuðlað að ofhitnun í hagkerfinu. Peningastefna þurfi einnig að vera í stakk búin til að bregðast við auknum verðbólguvæntingum þar sem ört hækkandi húsnæðisverð auki spennu í vísitölu neysluverðs.
Verðbólga hafi verið lág á síðustu mánuðum, en sögulega hafi væntingar um verðbólgu verið miklar á Íslandi og því viðbúið að hún geti hækkað. Einnig sé hætta á óstöðugu innflæði fjármagns vegna mikils vaxtamunar við útlönd, og mælir hópurinn með aðgerðum til varnar þeirri þróun.
Ráðleggingar OECD-hópsins svipa mjög til niðurstaðna úr nýlegri skýrslu AGS um efnahagsástandið á Íslandi, en þar var einnig varað við ofhitnun hagkerfisins.
Úrbætur í ferðamannaiðnaðinum
Eitt meginatriða í OECD-skýrslunni var þó ferðamannaiðnaðurinn, en hópurinn taldi mikla þörf á uppbyggingu sjálfbærs og opins vaxtar iðnaðarins. Hópurinn leggur til þverpólitískrar samvinnu auk fjöldatakmarkanna og innviðafjárfestinga á viðkvæmum stöðum.
Var það mat hópsins að afnema ætti skattaívilnanir á ferðaþjónustu og færa hana í almennt þrep virðisaukaskatts. Mari Kiviniemi minntist á að slíkar skattaívilnanir væru til staðar í mörgum löndum á þeim grundvelli að gagnast fátækum. Sá rökstuðningur gildir hins vegar ekki um Ísland og því ætti að afnema skattaundanþágunni.
Einnig bætir Douglas Sutherland, meðlimur OECD-hóspins, við að virðisaukaskattur sé í eðli sínu mjög hagkvæmur. Til langs tíma væri hækkun virðisaukaskatts jákvæð miðað við aðra skattlagningu, en hún sé einnig mikilvæg til að koma í veg fyrir hollensku veikina.