Mat á tekjum ríkissjóðs af auðlindarentuskatti að norskri fyrirmynd, miðað við núverandi skatthlutfall 34,3%, er samkvæmt framangreindum forsendum kringum 7 milljarðar.
Þetta kemur fram í svari Benedikts Jóhannessonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Oddnýjar Harðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar.
Í fyrirspurninni var sérstaklega vikið að norskri fyrirmynd, þar sem um hana er fjallað í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.
Í svari Benedikts kemur fram, að aðeins sé um grófa nálgun að ræða og taka þurfi tillit til ýmissa fyrirvara. „Til að fá nákvæmara og áreiðanlegra tekjumat þarf að fara í viðameiri rannsóknarvinnu en þá sem fram fór við vinnslu þessa svars. Meðal annars þarf að afla mun ítarlegri gagna en fyrir liggja opinberlega um starfsemi raforkufyrirtækja, þar á meðal upplýsinga fyrir hverja virkjun fyrir sig og fá uppgefið raforkuverð langtímasamninga sérstaklega. Þá þarf einnig að skoða nánar hvort hinn sérstaki arðsemisfrádráttur sem notaður er við útreikning skattsins í Noregi eigi við hér á landi,“ segir í svari Benedikts.
Sérstaki auðlindarentuskatturinn (n. grunnrenteskatt) á raforkufyrirtæki í Noregi er 34,3% af sérstökum skattstofni sem reiknaður er fyrir hverja virkjun fyrir sig. Skattstofninn samanstendur af reiknuðum sölutekjum að frádregnum rekstrarkostnaði, leyfisgjöldum, fasteignasköttum, afskriftum og sérstökum arðsemisfrádrætti (n. skjermingsfradrag), að því er segir í svari ráðherra. 1 Skatturinn er aðeins lagður á þær virkjanir sem eru með uppsett afl meira en 10 000 kVA (8 MW). Flestar virkjanir sem falla undir þau skilyrði eru í eigu HS Orku, Landsvirkjunar, Orku náttúrunnar, Orkubús Vestfjarða og Orkusölunnar.
Í svari Benedikts er sérstaklega tekið fram að ekki hafi verið unnt að afla gagna um hverja virkjun fyrir sig, sem skatturinn myndi ná til á Íslandi.
„Þau gögn sem matið á tekjum ríkissjóðs af auðlindarentuskatti að norskri fyrmynd byggist á eru upplýsingar Orkustofnunar um raforkuvinnslu eftir fyrirtækjum, meðalverði raforku á hverja kWst frá Orkustofnun og upplýsingum sem fram koma í ársreikningum fyrrnefndra raforkufyrirtækja. Ekki var unnt að fá upplýsingarnar fyrir hverja virkjun. Tekjumatið hér er þó ekki byggt á upplýsingum eftir virkjunum heldur eftir raforkufyrirtækjum og því aðeins um ákveðna nálgun að ræða. Byggt er á gögnum frá árinu 2015 nema annað sé tekið fram.“
„Skattstofninn reiknast af sölutekjum sem eru margfeldi af raforkuframleiðslu og raforkuverði sem fæst á markaði. Ef raforkuframleiðsla er samkvæmt langtímasamningum er stuðst við samningsverð í stað markaðsverðs. Við útreikninga var miðað við að meðalraforkuverð væri 5,22 krónur/kWst á markaði. Það samsvarar meðalverði ársins 2015 samkvæmt Orkustofnun. Upplýsingar um raforkuverð samkvæmt langtímasamningum eru hins vegar ekki fáanlegar enda í flestum tilfellum um trúnaðarupplýsingar að ræða. Farin var sú leið að miða við 3,23 krónur/kWst (24,5 USD/MWst) sem er það raforkuverð til iðnaðarins að meðtöldum flutningi sem fram kemur í ársreikningi Landsvirkjunar. Til frádráttar kom kostnaður við raforkuflutning til þess að reyna nálgast verð án flutnings,“ segir í svari ráðherra.