„Ánægjulegt að heyra að þessi ákvörðun verði endurskoðuð. Bala hefur lagt mikið til samfélagsins á þeim tíma sem hann hefur búið hér. Hann á ríkisborgararéttinn svo sannarlega skilinn.“ Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, ráðherra velferðarmála, á Facebook síðu sinni.
Eins og Bala Kamallakharan greindi frá á Facebook síðu sinni í gær, þá fékk hann þær fréttir frá Útlendingastofnun að ákvörðun um höfnun umsóknar hans um íslenskan ríkisborgararétt verði endurskoðuð.
Bala segir ákvörðunina hafa verið byggða á tillögu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Bala hefur á undanförnum árum meðal annars unnið ötullega af því að kynna íslensk verkefni og fyrirtæki fyrir erlendum fjárfestum.
Lögreglan þarf því að gefa út nýja tillögu til Útlendingastofnunar svo málið verði leiðrétt. Einnig þarf Bala að skrifa bréf til Lögreglunnar þess efnis að mistök hafi átt sér stað hjá lögreglunni
Umsókn Bala var upphaflega hafnað vegna hraðasekta en hafi einstaklingur fengið fleiri en eina hraðasekt hefur það áhrif á ákvörðunina.
Í tilfelli Bala hefur hann þó einungis fengið eina sekt sjálfur en fleiri sektir voru skráðar á hann fyrir mistök, að því er fram kemur á vef mbl.is. Samkvæmt Bala hafði eiginkona hans einnig fengið hraðasekt en bifreið þeirra er skráð á Bala og því hafi fleiri sektir verið skráðar á hans nafn.
Yfirlýsing frá Útlendingastofnun, vegna málsins, fer hér að neðan.
„Er rétt að Útlendingastofnun synji fólki um ríkisborgararétt fyrir að hafa fengið eina hraðasekt að lægri upphæð en 50.000 krónur?
Nei, það er ekki rétt.
Eitt af skilyrðunum fyrir veitingu ríkisborgararéttar er að umsækjandi hafi ekki, hérlendis eða erlendis, sætt sektum eða fangelsisrefsingu eða eigi ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi samkvæmt íslenskum lögum (sbr. 6. tl. 9. gr. laga um ríkisborgararétt nr. 100/1952).
Ein stök sekt hefur aðeins í för með sér biðtíma ef hún er 50.000 krónur eða hærri. Stök sekt sem er lægri en 50.000 krónur hefur ekki í för með sér neinn biðtíma fyrir umsækjanda og kemur því ekki í veg fyrir að viðkomandi verði veittur ríkisborgararéttur að öðrum skilyrðum uppfylltum.
Þegar um endurteknar sektarrefsingar er að ræða, að samanlagðri lægri fjárhæð en 101.000 krónur, er Útlendingastofnun heimilt að veita ríkisborgararétt, ef aðrar upplýsingar um umsækjanda mæla ekki gegn því, en þó ekki fyrr en að liðnum biðtíma (þ.e. að a.m.k. eitt ár hafi liðið frá því að síðasta brot var framið og sekt sé greidd að fullu).
Ákvörðun um hvort umsækjandi um ríkisborgararétt uppfylli skilyrði 6. tl. 9. gr. ríkisborgaralaga byggir á umsögn frá lögreglu sem Útlendingastofnun óskar eftir á grundvelli 7. gr. sömu laga. Umsögnin er ítarlegri en sakavottorð þar sem allar þær sektir og refsingar sem einstaklingur hefur hlotið koma fram. Umsögnin er notuð til að ákveða hvort umsækjandi uppfylli skilyrðin með tilliti til biðtíma, hvort umsækjandi eigi ólokið mál í réttarvörslukerfinu, samanlagðrar upphæðar sekta, þess hvort brot teljast endurtekin og hvort sekt hafi verið greidd að fullu eða fullnustuð með öðrum hætti.
Eins og áður sagði er til skoðunar hvort umsögn lögreglu til Útlendingastofnunar í máli viðkomandi umsækjanda hafi byggt á réttum upplýsingum.
Tekur sex mánuði að fá svar við því hvers vegna umsókn um ríkisborgararétt hefur verið synjað?
Meðalafgreiðslutími umsókna um íslenskan ríkisborgararétt er nú 6 - 8 mánuðir en umsóknir eru afgreiddar í þeirri röð sem þær berast. Þegar umsókn hefur verið afgreidd er umsækjanda send ákvörðun. Ef umsókn er synjað er ástæða synjunarinnar tilgreind í ákvörðuninni.“