Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra afhenti í dag Snorra Olsen tollstjóra jafnlaunamerkið. Merkið hugsað sem viðurkenning um að fyrirtækið hafi hlotið jafnlaunavottun.
„Þetta er mjög stór dagur í mínum huga og ástæða til að fagna þeim áfanga sem hér hefur náðst í baráttunni fyrir launajafnrétti kynja. Ég er sannfærður um að innleiðing jafnlaunavottunar verði þungt lóð á vogarskálar launajafnréttisins til lengri tíma litið“ sagði Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra þegar hann afhenti Snorra Olsen jafnlaunamerkið í velferðarráðuneytinu í dag.
„Þótt innleiðing jafnlaunastaðalsins hjá embættinu hafi kostað tíma og fyrirhöfn hefur það verið vel þess virði. Þessi vinna hefur veitt okkur betri yfirsýn yfir launauppbygginguna, hún dregur fram hvað betur má fara og vottunin á eftir að hjálpa okkur við að laða að gott starfsfólk vegna þeirrar viðurkenningar sem hún felur í sér“ sagði Snorri Olsen tollstjóri þegar hann tók við jafnlaunamerkinu ásamt Unni Ýr Kristjánsdóttur, forstöðumanni mannauðsviðs embættisins.
Markmið jafnlaunamerkisins er að vera gæðastimpill fyrirtækja og stofnana sem hlotið hafa jafnlaunavottun. Þannig staðfesti merkið að atvinnurekendur hafi komið sér upp ferli sem tryggir að málsmeðferð og ákvarðanir í launamálum feli ekki í sér nokkurs konar mismunun, hvort sem það er vegna kyns eða af öðrum toga.