Tveir meðlimir peningastefnunefndar Seðlabankans vildu lækka stýrivexti um 0,5% og nefndi einn þeirra verðhjöðnun utan fasteignamarkaðar, verri afkomu útflutningsfyrirtækja og aukinnar samkeppni á vörumarkaði því til rökstuðnings. Þetta kemur fram í fundargerð nefndarinnar vegna síðustu vaxtaákvörðunar.
Í fundargerðinni kemur fram að traustari kjölfesta verðbólguvæntinga við verðbólgumarkmiðið og hækkun gengis krónunnar hefðu gert nefndinni mögulegt að ná lögboðnu markmiði um verðstöðugleika með lægri vöxtum en annars. Því hafi allir nefndarmenn stutt tillögu seðlabankastjóra um að lækka stýrivexti um 0,25 prósentustig.
Hins vegar hefðu tveir þeirra heldur kosið að lækka vexti um 0,5 prósentustig, en töldu sig engu að síður geta fallist á tillöguna. Taldi einn nefndarmaður raunvextir útlána til aðila utan fasteignamarkaðs væru of háir þar sem verðhjöðnun um 0,8% hafi átt sér stað á tímabilinu ef húsnæðisliðurinn er tekinn úr vísitölu neysluverðs.
Sömuleiðis taldi sami nefndarmaður að hátt gengi krónunnar hamlaði eftirspurn og minnkaði smám saman eigið fé fyrirtækja í útflutningi, einkum þeirra sem skulduðu í krónum. Að því gefnu mætti líta á vaxtalækkun sem mótvægisaðgerð við háu og hækkandi gengi krónunnar.
Einnig benti nefndarmaðurinn á aukna samkeppni á vörumarkaði á tímabilinu, en hún fæli í sér meiri kaupmátt neytenda og lækkun á því stigi atvinnuleysis sem samræmist stöðugri verðbólgu.
Í peningastefnunefnd sitja þrír aðilar innan Seðlabankans, en þeir eru Már Guðmundsson seðlabankastjóri, Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri og Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur Seðlabankans.
Tveir nefndarmenn eru utanaðkomandi, en þeir eru Gylfi Zoëga prófessor í HÍ, og Katrín Ólafsdóttir lektor í HR.