Verðlag á matvöru hefur lækkað um 3,5% á síðustu 12 mánuðum, samkvæmt reikningum Arion banka. Þetta eru fyrstu verðbólgutölur eftir að Costco kom á markað.
Í nýjum Markaðspunkti greiningardeildar Arion banka kemur fram að vísitala neysluverðs hafi staðið í stað í júní. Með engri verðlagsbreytingu hafi ársverðbólgan því lækkað úr 1,7% niður í 1,5%.
Líkt og undanfarna mánuði vegur húsnæðisliðurinn þyngst í vísitölu neysluverðs, en ef litið er fram hjá honum mælist verðbreytingin um -3,1%.
Áhrifamest var hækkun á húsaleigu, en verð á hótelgistingu, veitingastöðum og flugi til útlanda hækkaði einnig. Enn frekar hækkaði verð á fötum og skóm, eins og venjan hefur fyrir sumarútsölu undanfarin ár.Á móti vó hins vegar vísitala á matar- og drykkjarvöru, en hún lækkaði um 1,2% milli mánaða og um 3,5% á liðnum 12 mánuðum. Aðrar vörur sem lækkað hafa lítillega í verði voru húsgögn, heimilisbúnaður og eldsneyti. Þetta eru fyrstu verðbólgutölur eftir að Costco opnaði, en samkvæmt greiningardeild Arion virðast áhrif opnunarinnar á smásölumarkaðinn vera ljós.