Markaðsvirði smásölurisans Haga hefur fallið um 20 prósent á einum mánuði og nemur nú um 50,1 milljarði króna. Í krónum talið hefur verðmiði fyrirtækisins lækkað um 10 milljarða á einum mánuði.
Svo virðist sem innkoma Costco hafi haft töluverð áhrif á eftirspurn eftir bréfum félagsins, en Costco opnaði vöruhús sitt 23. maí síðastliðinn.
Tugþúsundir einstaklinga og fyrirtækja hafa keypt aðildarkort hjá fyrirtækinu, og vinsældir fara síst dvínandi.
Eignir Haga í lok fyrsta ársfjórðungs á þessu ári námu rúmlega 30 milljörðum króna og eigin fé 18,2 milljörðum króna. Heildarskuldir fyrirtækisins nema 12,7 milljörðum, miðað við síðustu uppgjörstölur.