Benedikt Jóhannesson, fjármála og efnahagsráðherra, segir að til standi að leggja starfsemi Kadeco, þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, niður í núverandi mynd. Skipt var um stjórn í félaginu í vikunni og upprunalegu hlutverki þess, að selja fasteignir á Ásbrú, sé nú lokið. Benedikt telur hins vegar vera þekkingu hjá starfsfólki félagsins sem sé þess eðlis að hún gæti nýst áfram. Ráðuneytið vilji taka upp viðræður við heimamenn um hvernig sé hægt endurskoða starfsemina með það í huga.
Benedikt segir að hann hafi lýst þessari skoðun sinni á fundum með starfsfólki Kadeco, enda sé komið að tímamótum hjá félaginu. Það hafi selt nánast allar eignir sem það átti að selja og ljóst að endurskoða þurfi starfsemina. Á þriðjudag var haldinn aðalfundur og þar var kosin ný þriggja manna stjórn. Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokks, hafði verið formaður stjórnarinnar en vék ásamt tveimur öðrum stjórnarmönnum. Í stað Sigurðar Kára var Georg Brynjarsson, hagfræðingur og stjórnarmaður í Viðreisn, kjörinn stjórnarformaður. Auk hans komu tveir starfsmenn fjármála- og efnahagsráðuneytisins inn í stjórn Kadeco. Benedikt staðfestir að þessar breytingar séu liður í því að leggja starfsemi Kadeco niður í núverandi mynd.
Söluverðmæti áætlað um 26 milljarðar
Þegar hafa verið seldir um 264 þúsund fermetrar af húsnæði á Ásbrú til 40 mismunandi aðila í gegnum Kadeco. Um er að ræða iðnaðarhúsnæði, þjónustuhúsnæði og íbúðarhúsnæði. ÍBúðarhúsnæðið skiptist í 934 fjölskylduíbúðir og 1.053 einstaklingsíbúðir. Á þeim rúmu tíu árum sem liðin eru frá því að Kadeco tók við eignunum, en það var gert í kjölfar þess að bandaríski herinn yfirgaf herstöðina á Miðnesheiði, hafa nær allar eignir sem Kadeco fékk verið seldar. Áætlað heildarsöluverðmæti eignanna er um 18,6 milljarðar króna að nafnvirði eða um 26 milljarðar króna miðað við uppreiknaða vísitölu neysluverðs.
Kjarninn mun áfram fjalla ítarlega um Kadeco á næstu dögum.