Stjórn Íslenskra verðbréfa og Sigþór Jónsson hafa komist að samkomulagi um að Sigþór láti af störfum sem framkvæmdastjóri félagsins.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslenskum verðbréfum.
Sigþór tók við starfi framkvæmdastjóra í febrúar 2015 og leiddi í kjölfarið nýja fjárfesta að félaginu og hefur ásamt þeim unnið ötullega að uppbyggingu félagsins samhliða því að stýra þörfum breytingum á félaginu.
Á þessum umbreytingatíma hefur fyrirtækið markvisst skotið fleiri stoðum undir rekstur sinn. Nægir þar að nefna aukna áherslu á sérhæfðar fjárfestingar en Íslensk verðbréf hafa að undanförnu komið að nokkrum stórum verkefnum á því sviði. Í því sambandi má nefna nýja framtakssjóði og ráðgjöf sem fyrirtækið veitti bandaríska eignastýringarfyritækinu Pt Capital Advisors vegna kaupa þeirra á fjarskiptafyrirtækinu Nova. Á sama hátt hefur aukin áhersla verið lögð á miðlun verðbréfa og hafa Markaðsviðskipti Íslenskra verðbréfa aukið hlutdeild sína jafnt og þétt að undanförnu. Sem fyrr leggja Íslensk verðbréf mikla áherslu á eignastýringu fyrir fagfjárfesta og einstaklinga sem og rekstur sjóða innan ÍV sjóða hf. en þar hefur framboð sjóða aukist talsvert. Félagið er nú með um 125 milljarða króna í virkri stýringu fyrir viðskiptavini sína.
Þær breytingar sem Sigþór hefur leitt að undanförnu treysta Íslensk verðbréf enn frekar sem alhliða verðbréfafyrirtæki, það eina á landinu sem hefur höfuðstöðvar sínar utan höfuðborgarsvæðisins.
Haft er eftir Sigþóri að það hafi verið forréttindi að vinna fyrir ÍV. „Það hafa verið forréttindi að fá að taka þátt í þeim breytingum sem Íslensk verðbréf hafa farið í gegnum með því góða fólki sem starfar hjá félaginu og ekki síst fyrir mig og fjölskylduna að kynnast hinu góða samfélagi á Akureyri. Góður árangur hefur náðst með hæfum hópi starfsmanna og framtíð félagsins er björt. Ég vil þakka frábæru starfsfólki, stjórn, hluthöfum og ekki síst viðskiptavinum innananlands sem erlendis fyrir samstarfið og óska þeim alls hins besta í framtíðinni.“
Stjórn Íslenskra verðbréfa þakkar Sigþóri fyrir vel unnin störf í þágu félagsins, að því er segir í tilkynningu. „Stjórnin og Sigþór hafa átt ánægjulegt samstarf í gegnum þessar breytingar á fyrirtækinu og metur stjórnin frumkvæði hans og áræðni við stjórnun félagsins á undanförnum árum.“
Í stjórn ÍV eru auk Eiríks, Anna Guðmundsdóttir, Harpa Samúelsdóttir, Chris Van Aeken og Steingrímur Pétusson.