Í tilkynningu frá Fjármálaráðuneytinu kemur fram að tekjuskatts- og útsvarsstofn hafi aukist um 11,2% árið 2016. Á sama tímabili hafa heildargreiðslur ríkissjóðs vegna vaxtabóta og barnabóta lækkað.
Álagning opinberra gjalda á einstaklinga fyrir árið 2016 var birt á vef stjórnarráðsins í gær, en þar kemur fram að tekjur ríkisins af tekjuskatti og útsvari hafi aukist umtalsvert á árinu. Framteljendum hafi fjölgað um 3,3% milli ára og voru samtals 286.728 manns.
Tekjuskatts- og útsvarsstofn landsmanna árið 2017 vegna tekna árið 2016 nemur rúmum 1.200 milljarða króna og hefur aukist um 11,2% frá fyrra ári. Stækkun tekjuskattsstofnsins má öðru fremur rekja til hærri launa, en á sama tímabili hækkaði launavísitala Hagstofunnar að meðaltali um 11,4%. Álagt útsvar til sveitarfélaga jókst einnig um 11,9% og stendur nú í 192,7 milljörðum króna.
Til marks um gott efnahagsástand er einnig hækkun á innheimtum fjármagnstekjuskatti, en hún var 24,8% milli ára. Gjaldendum fjármagnstekjuskatts fjölgaði um 9,6%, eða í tæplega 43 þúsund. Fjöldi greiðenda er þó mun færri nú en árið 2010 áður en frítekjumarki vaxtatekna var komið á, en þá voru þeir tæplega 183 þúsund.
Sömu sögu er að segja með virðisaukaskattstofninn sem finna má í ríkisreikningi fyrir árið 2016. Stofninn jókst úr 197 milljörðum í 220 milljarða, eða um 11,6%.
Þrátt fyrir mikla hækkun skattstofnsins höfðu þó heildargreiðslur ríkissjóðs vegna barnabóta lækkað lítillega, eða um 0,5% milli ára. Lækkunin skýrist af því að tekjur barnafjölskyldna hafa hækkað meira en viðmiðunarfjárhæðir barnabóta og þannig hafi færri einstaklingar fengið bætur. Þó hefur fjárhæð meðalbóta hækkað um 2,4% milli ára, en bótaþegum fækkað um 2,9%.
Sömuleiðis hafa almennar vaxtabætur vegna vaxtagjalda af lánum til kaupa á íbúðarhúsnæði lækkað um 16,8%. Eins og með barnabætur skýrist lækkun vaxtabóta af betri eiginfjárstöðu heimila, en hún batnaði um 13,4% á síðasta ári.