Donald J. Trump, Bandaríkjaforseti, hefur vakið marga úr fjölmiðlastétt til reiði fyrir myndband sem hann birti á Twitter svæði sínu. Í því sést hann Trump lumbra á manni sem er tákn fyrir CNN sjónvarpsstöðina, en Trump hefur lengi átt í miklum deilum við CNN og fleiri fjölmiðla í Bandaríkjunum, og sakað þá um falskan fréttaflutning.
Í viðtali við ABC segir álitsgjafinn Ana Navarro, sem oft er kölluð til þegar pólitísk umræða er annars vegar, að með þessu háttalagi sé Trump að ýta undir ofbeldisfulla hegðun og það hann muni enda á því að „drepa einhvern“ úr fjölmiðlastétt.
Í yfirlýsingu frá CNN kemur fram að dagurinn í dag sé sorgardagur fyrir Bandaríkin, þar sem sjálfur forseti landsins hvetji til ofbeldis gegn fréttamönnum stöðvarinnar. Í yfirlýsingunni segir síðan enn fremur að CNN muni áfram sinna störfum sínum, og það ætti Trump að gera líka. Er þetta háttalag Trumps sagt vera langt fyrir neðan virðingu embættis forseta Bandaríkjanna.