Öll félögin sem skráð eru í kauphöll Íslands hafa fallið í verði í dag, en meðaltalslækkun hlutabréfavísitölunnar nemur nú 1,5 prósent. Mesta lækkunin hefur verið á hlutabréfum í Högum en hún nemur 2,5 prósent.
Öll félögin hafa lækkað, og flest á bilinu 0,5 til 1,7 prósent.
Mesta velta hefur verið með bréf Icelandair, eða 194 milljónir, en gengi þess hefur lækkað um 1,7 prósent í dag.
Markaðsvirði Haga er nú 50,3 milljarðar króna og hefur lækkað um meira en 10,5 milljarða króna á undanförnum fimm vikum, en á sama tíma hefur vísitala markaðarins hækkað.
Samkvæmt heimildum Kjarnans hafa margir lífeyrissjóða landsins, sem eru stærstu fjárfestarnir á íslenskum hlutabréfamarkaði, verið að auka við fjárfestingar sínar erlendis að undanförnu. Það getur leitt til þess að eftirspurn eftir hlutabréfum á Íslandi minnkar, en sveiflur á markaðnum hafa verið þónokkrar að undanförnu.
Í síðustu birtu hagtölum Seðlabanka Íslands, frá því í apríl, má sjá að erlend eign lífeyrissjóðanna nemur 789 milljörðum, en heildareignir lífeyrissjóðanna nema ríflega 3.300 milljörðum króna.