Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, gagnrýnir tillögur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um eflingu Fjármálaeftirlitsins á Íslandi og segir hann þar vera á villigötum. Hins vegar tekur hann undir ráðleggingar sjóðsins um afléttingu innflæðishafta.
Í leiðara fréttabréfsins Af vettvangi gerir Halldór Benjamín athugasemd við nýja skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um stöðu efnahagsmála á Íslandi. Í því tilliti nefnir hann tillögu sjóðsins um að efla Fjármálaeftirlitið og auka reglubyrði og eftirlit.
Að því loknu telur Halldór Benjamín upp nokkrar ástæður hvers vegna hann telur sjóðurinn vera á villigötum. Ein þeirra er sú að valdheimildir Fjármálaeftirlitsins hafi nú þegar verið auknar i samræmi við breytingar á evrópskri löggjöf á síðustu árum. Önnur ástæðan er stærð Fjármálaeftirlitsins, en hún er mikil í alþjóðlegum samanburði, hvort sem litið er til fjölda starfsmanna, kostnaðar eða annarra mælikvarða. Þriðja ástæðan er sú að kostnaður við eftirlit lendir á viðskiptavinum banka og annarra fjármálastofnana.
Þá segist Halldór vona að stjórnvöld taki ofangreinda þætti til skoðunar áður en farið verði af stað með frekara eftirlit í takt við órökstudd tilmæli AGS.
Auglýsing
Engin innflæðishöft
Hins vegar vill Halldór Benjamín meina að athugasemdir sjóðsins varðandi innflæðishöft Seðlabankans vera allrar athygli verðar. Hann gagnrýnir nýjar reglur bankans um hert innflæðishöft og segir þær vera ótækur vitnisburður þess að stjórnendur hans séu á fleygiferð í ranga átt.
Í skýrslu sinni tekur AGS fram að það hafi verið misráðið að koma á innflæðishöftum og segir varla nokkur rök vera fyrir því að viðhalda þeim samhliða lækkandi vöxtum hérlendis og hækkandi vöxtum erlendis.
Sjóðurinn segir vísbendingar vera þess efnis að fjármagnsinnflæði hafi í auknum mæli farið inn á hlutabréfamarkaðinn í stað skuldabréfa, en fjárfestingar í hlutabréfum eru undanskilin höftunum. Kjarninn hefur áður fjallað um aukinn hlut aflandskrónueigenda í skráðum fyrirtækjum í Kauphöllinni, en þeir hafa sótt í sig veðrið á síðustu mánuðum.
Í lokaorðum leiðarans segir Halldór: „Það er leikur einn að ganga of langt. Raunveruleg list er fólgin er fólgin í því að ganga nægjanlega langt. Þar eru Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands ekki undanskilin.“