Hlýnun jarðar er vandi sem mannkynið stendur frammi fyrir og er orðið ljóst að loftslagsbreytingar munu hafa áhrif á ýmsa þætti í lífi okkar í náinni framtíð. Eitt þessara vandamála er að dýr sem nýtt eru til manneldis þola aukið hitastig misvel.
Á svæðum þar sem hiti er nú þegar hár má búast við að aukinn hiti hafi neikvæð áhrif á velferð dýra sem síðan getur leitt til minni gæða í afurðum þeirra.
Rannsóknarhópur við háskólann í Flórída (University of Florida Institute of Food and Agricultural Sciences) hlaut nýverið þriggja ára styrk til að vinna að lausn á þessum vanda með nýstárlegri aðferð. Vísindamennirnir hyggjast erfðabreyta nautgripum svo þeir þoli heitt loftslag betur.
Verkefnið er enn á frumstigi en fyrsta verk er að rannsaka nautgripakyn sem nefnist Brangus. Brangus-nautgripir þola heitt loftslag og raka vel og verður til að byrja með reynt að bera kennsl á hvaða erfðaþættir það eru sem gera þeim það kleift. Þegar þær niðurstöður liggja fyrir vonast rannsóknarhópurinn til þess að hægt verði að nýta erfðatækni til að bæta hitaþol nautgripastofna í Bandaríkjunum.
Skiptar skoðanir eru á rannsóknum sem þessum og eru ekki allir sannfærðir um ágæti erfðatækninnar. Að auki fjölgar þeim sem álíta að takmörkun eða útilokun á neyslu dýraafurða sé besta leiðin til að sporna gegn loftslagsbreytingum, enda er kolefnisfótspor nautgriparæktunar afar stórt. Þeir sem ekki geta hugsað sér lífið án kjöts og osta eru hins vegar líklegir til að halda áfram að leita leiða til að halda neyslu dýraafurða áfram.