Bandarísk stjórnvöld hafa krafist þess að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna verði kallað saman tafarlaust til að ræða ógnina sem stafar af Norður-Kóreu og tilraunum hers landsins með langdrægar flaugar sem geta borið kjarnaodda.
Ráðgert er að öryggisráðið með 15 fulltrúum fundi strax á morgun, að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins BBC. Rússar og Kínverjar hafa sent frá sér sameiginlega tilkynningu þar sem þess er krafist að kjarnorkutilraunum Norður-Kóreu verði hætt.
Kim Jong-un, hinn óútreiknanlegi leiðtogi Norður-Kóreu, er sagður hafa fylgst með tilraununum, en það var ríkisfréttastofa Norður-Kóreu sem færði heimamönnum fyrstu tíðindin af þeim.
Þá hafa nágrannaríki Norður-Kóreu, Suður-Kórea og Japan, jafnframt krafist þess að gripið verði til aðgerða til að stöðva tilraunir Norður-Kóreu.
Í umfjöllun BBC segir að sérfræðingar bandarískra stjórnvalda telji það vera rétt, að Norður-Kórea geti nú skotið langdrægum flaugum með kjarnaoddi, alla leið inn á bandarískt yfirráðasvði. Nákvæm stýring í átt að gefnu skotmarki, sé þó eitthvað sem Norður-Kórea ráði ekki við.