Fjármála- og efnahagsráðuneytið tilkynnti í dag að ný eigendastefna fyrir fjármálafyrirtæki í eigu ríkissjóðs hafi tekið gildi eftir að hún hafi verið samþykkt af ríkisstjórn. Í tilkynningunni segir að markmið stefnunnar séu að tryggja góða og fyrirsjáanlega stjórnarhætti fjármálafyrirtækja.
Um er að ræða uppfærða eigendastefnu fyrir fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins, en fyrsta stefnan var sett fram árið 2009. Í ljósi stöðu þeirrar tíma var markmið þeirrar stefnu því að byggja upp almennt traust á stjórn og starfsemi ríkisrekinna fjármálafyrirtækja, samkvæmt ráðuneytinu.
Stefnan gildir fyrir fjögur fyrirtæki: Landsbankann, Íslandsbanka, Arion banka og Sparisjóð Austurlands.
Stefnt er að því að ríkissjóður eigi 34-40% eignarhlut í Landsbankanum til langframa í því skyni að „stuðla að stöðugleika í fjármálakerfi landsins og tryggja nauðsynlega innviði þess“.
Á hinn bóginn er stefnt að því að selja allan eignarhlut ríkisins í Arion banka þegar hagfelld og æskileg skilyrði eru fyrir hendi. Salan muni að öllum líkindum eiga sér stað í tengslum við sölu meirihlutaeigandans og skráningu bankans á hlutabréfamarkað.
Einnig stendur til samkvæmt stefnunni að selja allan hlut ríkisins í Íslandsbanka þegar nægileg skilyrði eru fyrir hendi. Arðgreiðslum og söluandvirði bankans skuli ráðstafað til niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs, samkvæmt stefnunni.