Mikil breyting hefur orðið á viðskiptasambandi Íslands við Bandaríkin á undanförnum árum, og munar þar mest um gríðarlegan vöxt í ferðaþjónustu. Ferðamenn frá Bandaríkjunum eru nú mikilvægasti hópur ferðamanna fyrir ferðaþjónustuna í landinu, sé mið tekið af nýjustu tölum.
Mikilvægasta landið
Bandaríkin er nú það land sem Ísland á í mestum viðskiptum við, þegar horft er til inn- og útflutnings á vörum og þjónustu. Heildarumfangið nemur 284,8 milljörðum króna, samkvæmt upplýsingum sem koma fram í samantekt Samtaka atvinnulífsins.
Í henni er horft til hagsmuna Íslands vegna Brexit stöðunnar í Bretlandi, og hvernig Íslandi verði að tryggja sína hagsmuni.
Forvitnilegt er að rýna í tölurnar um viðskiptin við einstök lönd, en þjónustutekjur frá Bandaríkjunum - ekki síst vegna gjaldeyristekna frá ferðamönnum - nema 126,2 milljörðum króna. Það er meira en tvöfalt meira en hjá þeirri þjóð sem kemur næst á eftir, Bretlandi en þjónustuútflutningur þangað nemur 61 milljarði króna.
Sóknarfæri í útflutningi
Innflutningur frá Bandaríkjunum er einnig mestur af öllum löndum, eða 68 milljarðar króna.
Athyglisvert er að rýna í tölurnar um vöruútflutning til Bandaríkjanna, en hann er frekar lítill í samanburði við mörg önnur lönd. Á ári nemur hann ríflega 35 milljörðum á meðan Bretland er með 72 milljarða, líkt og Spán. Útflutningurinn til Bandaríkjanna er á pari við Frakkland, eins og mál standa nú.
Íbúafjöldi í Bandaríkjunum er 326 milljónir, en í Frakklandi 65 milljónir. Þá eru Bandaríkin eitt stærsta ferðamannaland heims, og markaðurinn fyrir hinar ýmsu vörur risavaxinn.
Augljós sóknarfæri virðast vera í þessum efnum, ekki síst fyrir matvælaframleiðendur.