Ragnar Þór Ingólfsson segir sér verða „hreinlega óglatt“ við að heyra af bónusgreiðslum til stjórnenda eignarhaldsfélags gamla Landsbankans. Stjórnendurnir eiga að hafa fengið um 90 milljónir á mann vegna flýtingu á endurgreiðslum sem þeir áttu enga aðkomu að.
Í Markaðnum á Vísi kemur fram að fjórir stjórnendur eignarhaldsfélagsins LBI hafi fengið bónus sem næmi samtals 350 til 370 milljónum króna. Á meðal þeirra er Kolbeinn Árnason, fyrrverandi framkvæmdastjóri SFS, og Ársæll Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LBI. Eignarhaldsfélagið virkjaði umfangsmikið bónuskerfi undir lok síðasta árs.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, gagnrýnir bónusgreiðslurnar í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni. Þar segir hann: „Manni verður hreinlega óglatt við að lesa svona fréttir. Hversu langt geta stjórnvöld og fjármálakerfið gengið á umburðarlyndi og þrælslund almennings?“