Þorsteinn Víglundsson, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir ný lög um skattfrjálsan séreignasparnað til fyrstu íbúðakaupa gagnast millitekjuhópum álíka vel og tekjuhærri hópum á Facebook- síðu sinni í dag.
Um mánaðarmótin tóku í gildi ný lög þar sem einstaklingum er heimilt að nota 500 þúsund krónur af séreignasparnaði sínum skattfrjálst til kaupa á fyrstu íbúð, árlega í allt að tíu ár.
Á blaðamannafundi Íbúðalánasjóðs var fjallað um nýju löggjöfina og hún sögð gagnast best tekjuháum einstaklingum. Greint er frá þessu á vef Vísis, en þar segir Una Jónsdóttir, hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði, úrræðið vera tekjutengt og að einstaklingur þurfi að hafa um 690 þúsund krónur á mánuði í laun til að fullnýta úrræðið.
Í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni svarar Þorsteinn gagnrýni íbúðalánasjóðs um að verið sé að hygla hátekjuhópum. Þorsteinn segir meðallaun einstaklings árið 2015 nema um 612 þúsund krónum á mánuði, en búist er við því að meðallaun ársins 2017 verði um 719 þúsund krónur sé tekið mið af launaþróun. Miðað við þróunina segir Þorsteinn úrræðið gagnast millitekjuhópum álíka vel og tekjuhærri hópum.
Enn fremur bendir hann á að með úrræðinu sé verið að auðvelda öllum tekjuhópum fjárfestingu í húsnæði og að önnur úrræði komi sérstaklega til hjálpar lág- og millitekjuhópum.