„Embætti ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra óskuðu eftir upplýsingum um þátttakendur í gjaldeyrisútboðum Seðlabanka Íslands sem þeim voru afhentar með nokkrum sendingum vegna áranna 2012 til 2015.
Þannig segir meðal annars í svari Seðlabanka Íslands við fyrirspurn Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata, um fjárfestingaleið Seðlabankans, en fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag.
Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri var í gær spurð hvort upplýsingar frá Seðlabankanum hefðu leitt til aðgerða af hálfu embættisins: „Við óskuðum eftir upplýsingum vegna þess sem fór fram á tímabilinu 2012 til 2015. Beiðnin var send í lok apríl í fyrra. Við vorum m.a. að leita upplýsinga sem tengjast skattaskjólsgögnunum. Það var 21 einstaklingur sem kom fram á skattaskjólsgögnunum sem kom einnig fram í gögnunum sem við fengum frá Seðlabankanum. Einhver þeirra mála eru í rannsókn,“ segir Bryndís í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands, sem einnig var nefnd 50/50 leiðin, var gríðarlega umdeild aðferð sem Seðlabankinn beitti til minnka hina svokölluðu snjóhengju, krónueignir erlendra aðila sem fastar voru innan fjármagnshafta og gerðu stjórnvöldum erfitt fyrir að vinna að frekari losun þeirra hafta. Samkvæmt henni gátu þeir sem samþykktu að koma með gjaldeyri til Íslands skipt þeim í íslenskar krónur á hagstæðara gengi en ef þeir myndu gera það í næsta banka. Mun hagstæðara gengi.
Þeir sem tóku á sig „tapið“ í þessum viðskiptum voru aðilar sem áttu krónur fastar innan hafta en vildu komast út úr íslenska hagkerfinu með þær. Þeir sem „græddu“ voru aðilar sem áttu erlendan gjaldeyri en voru tilbúnir að koma til Íslands og fjárfesta fyrir hann. Seðlabankinn var síðan í hlutverki milligönguaðila sem gerði viðskiptin möguleg. Líkt og verslun sem leiddi heildsala og neytendur saman.
Alls fóru fram 21 útboð eftir fjárfestingaleiðinni frá því í febrúar 2012 til febrúar 2015, þegar síðasta útboðið fór fram. Alls komu um 1.100 milljónir evra til landsins á grundvelli útboða fjárfestingarleiðarinnar, sem samsvarar um 206 milljörðum króna.
Ef þeir sem komu með þennan gjaldeyri til Íslands hefðu skipt þeim á opinberu gengi Seðlabankans, líkt og venjulegt fólk þarf að gera, hefðu þeir fengið um 157 milljarða króna fyrir hann. Virðisaukningin sem fjárfestingaleiðin færði eigendur gjaldeyrisins í íslenskum krónum var því 48,7 milljarðar króna. Skilyrt var að binda þyrfti féð sem fært var inn í landið með þessu hætti í fasteignum, verðbréfum, fyrirtækjum eða öðrum fjárfestingakostum. Því má segja að þeir sem hafi nýtt sér fjárfestingarleiðina hafi fengið um 20 prósent afslátt af þeim eignum sem þeir keyptu.
794 innlendir aðilar komu með peninga inn í íslenskt hagkerfi í gegnum útboð fjárfestingarleiðar Seðlabanka Íslands. Peningar þeirra námu 35 prósent þeirrar fjárhæðar sem alls komu inn í landið með þessari leið, en hún tryggði um 20 prósent afslátt á eignum sem keyptar voru fyrir peninganna á Íslandi.
Alls fengu þessir aðilar 72 milljarða króna fyrir þann gjaldeyri sem þeir skiptu í íslenskar krónur samkvæmt skilmálum útboða fjárfestingarleiðarinnar. Afslátturinn, eða virðisaukningin, sem þeir fengu með þessu umfram það ef þeir hefðu skipt gjaldeyrinum á skráðu gengi Seðlabankans er um 17 milljarðar króna.