Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch vann aðalverðlaun Evrópudeildar GWIIN- samtakanna, sem gefa út verðlaun til kvenna í nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi. Sandra var meðal fimm íslenskra kvenna sem hlutu verðlaun, en alls voru 15 verðlaun veitt.
Evrópudeild samtakanna GWIIN (Global Women Inventors and Innovators) héldu aðalfund sinn á Bari á Ítalíu þann 28. og 29. júní síðastliðinn. Aðalverðlaunin hlaut Sandra fyrir vinnu sína í fyrirtækinu Platome líftækni.
Fyrirtækið byggir á vinnu Söndru, sem er aðjúnkt í lífeindafræði við HÍ, og Dr. Ólafi E. Sigurjónssyni við nýjar leiðir á frumuræktun. Afgangs blóðflögur eru fengnar frá Blóðbankanum og eru þær nýttar til að rækta stofnfrumur.
Í samtali við Kjarnann segir Sandra að verkefni hennar hafi fengið verðlaun fyrir mikla vaxtamöguleika og nýnæmi. Stefnan sé sett á erlenda markaði, en þau líta helst til Norðurlanda og Bandaríkjanna.
Alls voru 40 konur tilnefndar frá ýmsum Evrópulöndum, en 15 verðlaun voru veitt. Meðal þessara 40 kvenna voru sex Íslendingar, en fimm af þeim hlutu verðlaun. Þær eru:
- Hjördís Sigurðardóttir fyrir verkefnið Spor í sandinn
- Margrét Júlíana Sigurðardóttir fyrir verkefnið Mussila
- Sigrún Lára Shanko fyrir hönnunina sína Shanko Rugs
- Þorbjörg Jensdóttir fyrir verkefnið sitt og vöruna HAp plus
- Hildur Magnúsdóttir fyrir Pure Natura