Miklar breytingar munu eiga sér stað á bankastarfsemi á næstu misserum, og miða skipulagsbreytingar hjá Íslandsbanka að því að laga bankann og þjónustu hans að þessum breytta veruleika. Tækni- og reglugerðarbreytingar knýja á um breytta starfsemi og í þessu ferli felast tækifæri og ógnanir.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í ítarlegri grein eftir Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, í grein í Vísbendingu í dag. Í greininni rekur hún hvernig umhverfi bankastarfsemi er að breytast, og hvernig Íslandsbanki er að takast á við þessar breytingar. „Það að margvísleg fyrirtæki, önnur en bankar, hafi áhuga á að veita bankaþjónustu leggur ríkar kröfur á okkur bankafólkið um að veita framúrskarandi þjónustu, bæði innan útibúa en ekki síður með rafrænum dreifileiðum eins og appi og netbanka. Hópur þessara fyrirtækja er mjög fjölbreyttur. Alþjóðlegu tæknirisarnir Amazon, Google og Facebook hafa allir orðið sér út um starfsleyfi til að veita bankaþjónustu í allri Evrópu. Við sjáum innlend tæknifyrirtæki eins og Advania sömuleiðis feta fyrstu skref í greiðsluþjónustu og símafyrirtækið Nova rekur greiðsluappið Aur í samkeppni við Kass sem Íslandsbanki starfrækir. Samkvæmt rannsókn Sopra Banking hefur yfir helmingur Evrópubúa áhuga á að hefja bankaviðskipti við annan aðila en banka,“ segir Birna meðal annars í greininni.
Hún segir að bankar þurfi að taka tillit til þessa breytta veruleika sem nú blasi við. Stafræn sókn hafi verið mikil á síðustu árum og hún muni halda áfram. Þessu ferli hafi fylgt hagræðing í rekstri en einnig enn meiri og betri þjónusta við viðskiptavini. „Eftir því sem stafrænni sókn vindur áfram, hefur Íslandsbanki haft tækifæri til hagræða í útibúaneti sínu. Útibúum hefur þannig fækkað úr 26 árið 2012 í 14 í dag sem er um 17 prósent af heildarfjölda útibúa á Íslandi.“
Í greininni rekur hún síðan ítarlega hver markmiðin séu með skipulagsbreytingum bankans, sem nýlega voru kynntar. Íslandsbanki er 100 prósent í eigu ríkisins.