Elsti sonur Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, Donald Trump yngri, var lofað upplýsingum sem mundu koma höggi á Hillary Clinton, fyrir fund með rússneskum lögmanni með tengsl í Kreml í aðdraganda forsetakosninganna í fyrra.
Fundinn sátu Trump yngri, Paul J. Manaford kosningastjóri Trumps og tengdasonur forsetans, Jared Kushner. Manaford og Kushner greindu nýlega frá því að fundurinn hafi farið fram.
Bandaríska dagblaðið The New York Times hefur þetta eftir heimildarmönnum innan Hvíta hússins og fleirum sem höfðu vitneskju um fundinn. Blaðið greindi frá því á laugardag að fundurinn með rússneska lögmanninum hefði farið fram en hafði þá ekki upplýsingar um tildrög hans. Heimildarmenn gáfu sig fram við blaðið í kjölfar þeirrar fréttar.
Fundurinn fór fram í Trump-turni í New York 9. júní 2016, tveimur vikum eftir að Donald Trump hafði tryggt sér útnefningu Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar. Efni fundarins er talið vera lykilatriði í svarinu við meginspurningum þeirra sem rannsaka meint tengsl kosningabaráttu Trumps við Rússa. New York Times segir hér vera komna fyrstu opinberu vísbendinguna um að í það minnsta einhverjir viðriðnir kosningabaráttuna hafi verið ginnkeyptir fyrir hjálp frá Rússlandi.
Ekki er víst að rússneski lögmaðurinn, Natalia Veselnitskaya, hafi reitt fram upplýsingar um Clinton.
Í yfirlýsingu sem Trump yngri sendi frá sér í gær lýsir hann því sem svo að Veselnitskaya hafi sagst hafa upplýsingar um að einstaklingar tengdir Rússlandi hafi verið að styrkja kosningabaráttu Clinton og Demókrataflokkinn. „Orð hennar voru á reiki, óljós og stóðust ekki skoðun,“ segir Trump yngri og bætir við að engin gögn sem studdu orð lögmannsins hafi verið borin á borð.