Ólafur Arnarson sendi frá sér yfirlýsingu fyrr í dag, en í henni greinir hann frá því að hann segi af sér sem formaður Neytendasamtakanna.
Í yfirlýsingunni segir Ólafur að ágreiningur innan stjórnar samtakanna hafi laskað ímynd þeirra. Þeim sem þekkja til viti að samtökin hafi visnað og veikst með margvíslegum hætti og „í raun flotið hægt og bítandi að feigðarósi“. Þetta megi sjá með fækkun félagsmanna og verri þjónustusamninga við stjórnvöld. Ólafur vill meina að samtökin séu að liðast í sundur og segir þau hafa enga burði til að efna skuldbindingar sínar vegna núgildandi samninga.
Enn fremur verst Ólafur ásökunum um meint vanhæfi sitt og segir að taprekstur megi skýrast af miklum tekjusamdrætti en ekki auknum útgjöldum.
„Stjórn Neytendasamtakanna hefur borðið[sic] mig þungum sökum. Allar eru þær á skjön við raunveruleikann og sumar beinlínis upplognar.“
Ólafur segist einnig hafa hrakið allar ávirðingar lið fyrir lið og að enginn fótur sé fyrir þeim. Samtökin glími við alvarlegan tekjuvanda sem stjórn þeirra kjósi að skrifa upp á hans reikning.
Að lokum þakkar Ólafur fyrir þeim fjölmörgum sem hafa stutt hann og vonast um leið til þess að þeir sem taki við muni takast að „rétta skútuna við“.