Að hluta til má útskýra áhugaleysi almennings og stjórnvalda á hlýnun jarðar með því að benda á misvísandi skilaboð vísindamanna um hversu hratt og hversu mikið jörðin mun hlýna. Sumir vísindamenn horfa á hlýnunina í sögulegu og jarðsögulegu samhengi og spá því fyrir um 1,5-3°C hlýnun ef koldíoxíð í andrúmsloftinu tvöfaldast.
Aðra sögu segja hins vegar þeir sem nota reiknilíkön, þar sem hitaaukningin er borin saman við aukningu styrks á koldíoxíði í andrúmslofti. Útfrá þeim upplýsingum er búið til líkan sem segir að hlýnunin nemi 2-4,5°C verði tvöföldun á styrk koldíoxíðs.
Samkvæmt rannsókn sem unnin var við Harvard vantar báða hópa hluta af sögunni til að segja rétt til um hlýnun jarðar. Það vill nefnilega þannig til að jörðin hlýnar ekki alls staðar jafnt. Norðurskaut jarðar hlýnar mun hraðar en sá hluti jarðar sem er sunnan við miðbaug. Ástæða þess er misdreifing hafs og lands.
Þar sem land er til staðar verður meiri hlýnun á skömmum tíma, landið drekkur varma sólarinnar í sig meðan íshellan á suðurhvelinu endurkastar geislum sólarinnar í meira mæli. Svo til að byrja með hækkar hitinn hraðar á norðurhveli. Á meðan byggist varminn hægt og bítandi upp þar sem haf og ís eru alsráðandi og að lokum mun hlýnunin skila sér í auknum sjávarhita.
Aukinn sjávarhiti ýtir svo undir enn frekari hlýnun. Til dæmis minnkar skýjafar yfir hlýrri sjó, svo sólargeislarnir hafa greiðari aðgang. Auk þess minnkar ísbreiðan sem býr til stærra svæði lands sem getur drukkið í sig varma sólargeislanna.
Samkvæmt því sem birtist í grein Harvard-hópsins í Science Advances má því leiða líkur að því að hitastigið hækki enn meira en talið hefur verið, eða um allt að 6°C, verði tvöföldun á styrk koldíoxíðs í andrúmslofti. Viðbrögð jarðarinnar við hækkandi hitastigi sjávar muni nefnilega leiða til aukins hraða á hlýnun jarðar.
Það er líklega orðið allt of seint fyrir okkur að snúa þessari þróun við, en það er alls ekki of seint að takmarka skaðann. Þess vegna skipta sáttmálar eins og Parísarsamkomulagið svo miklu máli því samstíga eigum við miklu meiri von um að bjarga jörðinni okkar.