Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er sagður líklegur til að skipa Randel Quarles sem nýjan yfirmann eftirlits með stórum bönkum á Wall Street, að því er Wall Street Journal greinir frá í dag. Quarles hefur verið meðal innsta kjarna í baklandi Trumps, og hefur starfað sem fjárfestingastjóri hjá sjóðum á Wall Street. Í seinni tíð hefur ferill hans að mestu snúist um rekstur The Cynosure Group, sjóðs sem hann stofnaði sjálfur.
Trump segist ætla að „afregluvæða“ fjármálakerfið, það er minnka eftirlitshlutverk hins opinbera, „stórkostlega“ (massive). Seðlabanki Bandaríkjanna, undir stjórn Janet Yellen, hefur talað gegn því að slakað verði á eftirliti, og hefur bent á að fjármálakerfið sé sterkara nú en áður og efnahagslíf Bandaríkjanna hafi notið góðs af betra eftirliti. Gæði lána séu meiri en þau voru, og bankarnir hafi staðist nákvæm próf Seðlabankans.
Trump og helsta bakland hans er á allt annarri skoðun og lofaði Trump því í kosningabaráttunni, að það yrði eitt hans fyrsta verk, að ná skera niður eftirlit með bönkum á Wall Street, en ekki eru nema níu ár síðan Seðlabanki Bandaríkjanna og ríkissjóður björguðu stærstu bönkum landsins - nær öllum að tölu - með tæplega eitt þúsund milljarða Bandaríkjadala björgunarlánum, til að koma í veg fyrir að neyðarástand skapaðist á fjármálamarkaði og í heiminum öllum.
Í bók Ben Bernanke, fyrrverandi Seðlabankastjóra Bandaríkjanna, A Courage To Act, segir hann að það hafi munað einum sólarhring að sambærilegt ástand hefði skapast í Bandaríkjunum, og varð raunin í Kreppunni miklu á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar. Þá rauk atvinnuleysi upp í 30 prósent og neyðarástand skapaðist með fjöldagjaldþrotum um allt land, og raunar heiminn sömuleiðis.
Ekki hefur verið lögð fram ítarleg áætlun um hvernig afregluvæðingin mun birtast, en fastlega er gert ráð fyrir að sú áætlun muni koma fram síðar á þessu ári.