Icelandair mun í vetur loka síðustu erlendu söluskrifstofum sínum. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Guðmundur Óskarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair, segir þetta lið í þeirri stefnubreytingu að færa sölu- og markaðsstarf félagsins heim til Íslands, og setji aukinn kraft í markaðssetningu á netinu. Með aukinni samhæfingu megi búa til skilvirkara markaðsstarf þar sem netið er algjör miðpunktur.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Guðmundur innkomu Norwegian og kanadíska flugfélagsins WestJet á markaðinn fyrir flug yfir Norður-Atlantshafið hafa sett aukna pressu á verð. Til þess að mæta þessari samkeppni þurfi félagið að vera tilbúið í krefjandi aðstæður á markaði.
Icelandair hefur hækkað nokkuð í kauphöll Íslands að undanförnu, og er markaðsvirði félagsins nú 78 milljarðar króna, eftir ríflega 11 prósent hækkun undanfarinn mánuð.