Horn III, framtakssjóður í rekstri Landsbréfa keypti félögin Hagvagna, Hópbíla og Hvaleyri fyrir rúma 2,3 milljarða í fyrra. Félögin voru öll í eigu Gísla J. Friðjónssonar, skattakóngs Íslands, og Hafdísar Alexandersdóttur, konu hans. Þetta kom fram í Markaðnum í Fréttablaðinu í dag.
Samkvæmt frétt Markaðsins kemur fram í nýbirtum ársreikningi sjóðsins að 207 milljóna króna tap hafi orðið af rekstri Horns III í fyrra. Sjóðurinn hafi farið í tvennar stórar fjárfestingar, annars vegar keypi það 80% hlut í Basko á rúmlega 1,5 milljarða króna og hins vegar hópbifreiðafyrirtækin í eigu Gísla og Hafdísar á rúma 2,3 milljarða króna.
Basko, sem sjóðurinn keypti hlut í, á rekstrarfélag Tíu ellefu hf., Ísland verslun hf. og Imtex ehf. Meðal verslana sem heyra undir þessi félög eru Dunkin’ Donuts, Bad Boys Burgers & Grill, verslanir Iceland og 10-11.
Kjarninn greindi frá því í júní að Gísli J. Friðjónsson, fyrrverandi forstjóri Hópbíla, sé skattakóngur Íslands, en hann greiddi 570,5 milljónir króna í opinber gjöld í fyrra.