Gert er ráð fyrir því að fagfjárfestasjóðurinn ORK muni taka yfir hlutabréf í HS Orku hf., samkvæmt tilkynningu til Kauphallar í dag.
ORK er útgefandi skuldabréfaflokksins FORK 17 0901 sem er skráður hjá Nasdaq OMX á Íslandi. Stærsta eign sjóðsins er skuldabréf sem gefið er út af félaginu Magma Energy Sweden AB, en félagið var stofnað sem sænskt dótturfyrirtæki Magma Energy.
Í tilkynningunni sem barst Kauphöll tæplega hálf fimm í dag kemur fram að Magma Energy Sweden AB og ORK eigi í samningaviðræðum um uppgjör skuldabréfsins, en lokagjalddagi þess er 16. júlí næstkomandi. Við uppgjör er gert ráð fyrir að ORK muni yfirtaka hlutabréf í HS Orku hf. sem er handveðsett til tryggingar efndum skuldabréfsins.
Kjarninn greindi frá því fyrir tveimur árum síðan að Alterra Group, sem áður hét Magma Energy hafi reynt að kaupa skuldabréfið af ORK, en krafan hafi upphaflega verið í eigu Reykjanesbæjar.