Útlendingastofnun hefur veitt Bala Kamallakharan, indverskum nýsköpunarfjárfesti sem hefur verið búsettur hér á landi í rúman áratug, íslenskan ríkisborgararétt.
Í lok síðasta mánaðar greindi hann frá því á Facebook síðu sinni að honum hefði verið synjað um íslenskan ríkisborgararétt vegna hraðasektar. Þá hefði það tekið hann hálft ár að fá skýr svör. „Ég er orðinn íslenskur ríkisborgari. Tók tíma en hafðist að lokum,“ sagði hann á Facebook síðu sinni.
Einn af þeim sem var ánægður að heyra af því, að fyrri afstaða Útlendingastofnunar yrði endurskoðuð, var Þorsteinn Víglundsson, ráðherra velferðarmála, en hann sagði Bala dæmi um mann sem ætti að fá ríkisborgararétt þar sem hann hefði lagt gott eitt til íslensks samfélags.
Í tilkynningu sem Útlendingastofnun sendi frá sér, í kjölfar umræðu um synjunina, kom fram að fólki væri ekki synjað hefði það fengið eina hraðasekt að lægri upphæð en 50 þúsund krónur.
Stofnunin ákvað að endurskoða ákvörðun sína enda kom í ljós að Bala hafði aðeins fengið þessa einu sekt.