Íslenskur vinnumarkaður hefur tekið miklum breytingum frá hruni en augljóst er að mikill uppgangur er nú í þjóðarbúskapnum og þenslumerkin sjást greinilega. Breytingarnar sem orðið hafa á vinnuafli á markaði eru miklar í sumum geirum, en minni í öðrum. Framleiðni vinnuaflsins mældist um 4 prósent í fyrra sem er langt umfram framleiðnivöxt undanfarinna ára.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í ítarlegri grein dr. Katrínar Ólafsdóttur, lektors við Háskólann í Reykjavík, í Vísbendingu sem kom út í dag, en hún á sæti í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands.
Í greininni rekur Katrín þær miklu breytingar sem orðið hafa á vinnumarkaðnum. „Uppgangur í þjóðarbúskapnum er mikill um þessar mundir og kenna má ýmis þenslumerki á vinnumarkaði. Atvinnuleysi er nú svipað og það var á árinu 2008 og í fyrra fluttu 4 þúsund fleiri einstaklingar til landsins en frá því. Störfum hefur fjölgað mjög og vísbendingar eru um að opinberar tölur nái ekki utan um allan þanna fjölda starfa sem orðið hafa til í landinu,“ segir meðal annars í grein Katrínar.
Hún segir einnig líklegt að nokkur fjöldi erlendra starfsmanna komi til landsins til að vinna tímabundið, án þess að þeir séu skráðir í þjóðskrá. Í ljósi þess að vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands nái aðeins til þeirra sem eru skráðir í þjóðskrá, þá sé líklegt að það vanti gögn um fjölda starfsmanna. „Fjöldi erlendra þjónustufyrirtækja sem starfa hér á landi fór úr 11 fyrirtækjum á árinu 2016 í nálægt 50 fyrirtæki í ár. Fjöldi starfsmannaleiga hefur á sama tíma tvöfaldast úr 15 í nálægt 30. Starfsmannafjöldi þessara fyrirtækja var samtals um 400 í fyrra, en er nú ríflega 1.500,“ segir í grein Katrínar í Vísbendingu.