Greiningardeild Arion banka birti í gær gögn um dreifingu ferðamanna, en gögnin voru byggð á staðsetningu erlendra símtækja sem eru í reiki hjá Símanum. Staðsetning tækjanna er skráð tvisvar á sólarhring, klukkan 03:00 og klukkan 15:00 ,og ná frá júní 2016 til febrúar 2017.
Gögnin sýna að munur milli árstíða eykst eftir því sem fjær dregur Keflavíkurflugvelli og höfuðborgarsvæðinu. Í miðbæ Reykjavíkur og á Suðurnesjum er lítill munur á meðalfjölda erlendra símtækja á dag eftir árstíðum en í hinum landshlutunum, sérstaklega á Norður- og Austurlandi, koma mjög fáir ferðamenn á veturna.
Þar sem farsímanotkun er skoðuð að degi og nóttu til gefa gögnin einnig vísbendingu um hversu langt ferðamenn fara frá gististöðum sínum. Í ljós kemur að þeir eyða nóttinni frekar á höfuðborgarsvæðinu en nýta daginn til að skoða sig um og ferðast út á land, en 45% símtækja eru staðsett á höfuðborgarsvæðinu miðað við 35% um eftirmiðdaginn.
Hins vegar er einnig minnst á það í kynningu Arion banka að gögnin séu takmörkuð að ýmsu leyti. Þar sem þau eru einungis frá einu símfyrirtæki endurspegli þau hugsanlega ekki hegðun allra ferðamanna á Íslandi. Takmarkanirnar má sjá þegar farsímagögn eftir þjóðerni eru borin saman við gögn Hagstofu og Ferðamálastofu um gistinætur eftir þjóðerni, en þar gætir mikils misræmis. Til að mynda eru 26% ferðamanna frá Norður-Ameríku samkvæmt Hagstofu, en samkvæmt farsímagögnunum eru einungis 9% ferðamanna þaðan.
Þrátt fyrir vankanta telur greiningardeildin umrædd gögn vera „kærkomna viðbót“ við þá flóru upplýsinga sem nú þegar er til staðar um ferðamenn, sérstaklega í ljósi þess að önnur gögn séu einnig takmörkuð að ýmsu leyti.