Alþjóðlegu samtökin Oxfam gáfu út skýrslu fyrr í dag þar sem löndum var raðað eftir aðgerðum þeirra gegn ójöfnuði. Á þeim lista er Ísland í 12. sæti, langneðst allra Norðurlanda.
Í frétt Guardian kemur fram að vinna að skýrslu Oxfam hafi tekið ár, en markmið hennar er að raða löndum eftir því hversu mikið þau leggja sig fram við að draga úr ójöfnuði. Rannsóknin nær til 152 landa og og skoðar 18 atriði yfir þrjá málaflokka. Fyrsti flokkurinn metur útgjöld til velferðarmála, sérstaklega heilbrigðis- og menntamála, en þar er Ísland í 24. sæti. Annar flokkurinn mælir uppbyggingu skattkerfisins og á hverjum skattbyrðin lendir, en þar lendum við í 27. sæti. Ísland stendur sig best í þriðja málaflokknum sem mælir vinnumarkaðslöggjöf gegn ójöfnuði, en þar vermum við sjöunda sætið.
Þótt Ísland sé ofarlega á listanum er það langneðst allra Norðurlanda, sem verma fjögur af sex efstu sætunum. Munurinn á Íslandi og hinum Norðurlöndunum er mestur í uppbyggingu skattkerfisins en minnstur í vinnumarkaðslöggjöf.
Oxfam International er bandalag 13 samtaka í yfir 100 löndum, en markmið þeirra er að vinna gegn fátækt og óréttlæti víða um heim.
Á listanum hér að neðan má sjá efstu tólf löndin á listanum. Þar að auki er sæti hvers lands gefið í hverjum málaflokki.
Efstu tólf löndin á lista Oxfam
Land | Útgjöld til velferðarkerfisins |
Uppbygging skattkerfisins |
Vinnumarkaðs- löggjöf |
---|---|---|---|
Svíþjóð | 9 | 8 | 8 |
Belgía | 4 | 3 | 24 |
Danmörk | 8 | 9 | 12 |
Noregur | 20 | 6 | 3 |
Þýskaland | 2 | 17 | 6 |
Finnland | 3 | 23 | 10 |
Austurríki | 6 | 40 | 1 |
Frakkland | 5 | 19 | 21 |
Holland | 19 | 13 | 9 |
Lúxemborg | 12 | 21 | 11 |
Japan | 7 | 43 | 4 |
Ísland | 24 | 27 | 7 |