Samkeppniseftirlitið hefur ógilt samruna sem áformaður var með kaupum Haga hf. á öllu hlutafé í Lyfju hf. Ástæður ógildingarinnar hafi verið svipaður rekstur fyrirtækjanna, markaðsráðandi staða Haga og takmörkuð áhrif vegna opnun Costco. Þetta kemur fram í tilkynningu eftirlitsins.
Eftirtaldir punktar voru nefndir ástæður ógildingarinnar:
- Staða á mörkuðum sem Hagar og Lyfja starfa bæði á:
„Rannsókn Samkeppniseftirlitsins leiddi í ljós að fyrirtækin eru nánir keppinautar í smásölu á hreinlætis- og snyrtivörum, markaði fyrir vítamín, bætiefni og steinefni og markaði fyrir mat- og drykkjarvörur í flokki heilsuvara.“„Við samrunann hefði samkeppni milli fyrirtækjanna horfið og á sumum landssvæðum utan höfuðborgarsvæðisins hefði hið sameinaða fyrirtæki verið eini smásalinn á umræddum vörum“.
- Markaðsráðandi staða Haga á dagvörumarkaði:
„Rannsókn Samkeppniseftirlitsins leiðir ennfremur í ljós að samruninn hefði styrkt markaðsráðandi stöðu Haga. Sú styrking hefði fyrst og fremst birst í auknum innkaupastyrk hins sameinaða félags, samþættingu verslana, staðsetningu verslana og möguleikum á auknu vöruframboði í verslunum Lyfju.“
- Áhrif Costco:
„Það er niðurstaða þessarar rannsóknar að opnun og tilvist Costco á íslenskum markaði hafi takmörkuð áhrif á þá markaði sem Hagar og Lyfja starfa bæði á, þ.e. einkum á hreinlætis- og snyrtivörumarkaði.“
„Niðurstaða þessa máls verður því ekki reist á þeirri forsendu að Hagar séu ekki lengur í markaðsráðandi stöðu eða að sú breyting verði á næstunni. Í þessu sambandi er Samkeppniseftirlitið sammála Högum og öðrum markaðsaðilum sem hafa lýst því yfir að of snemmt sé að segja til um hvaða áhrif Costco muni hafa hér á landi til lengri tíma litið.“
Í tilkynningunni segir einnig að Hagar hafi lagt fram tillögur að skilyrðum til þess að koma í veg fyrir samkeppnisröskunum. Þessar tillögur hafi hins vegar ekki verið nægar að mati Samkeppnisyfirlitsins.
Í lok tilkynningarinnar segir Pál Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins:
„Almenningur á Íslandi á að njóta lægra verðs og betri þjónustu á mikilvægum neytendamörkuðum, á grundvelli virkrar samkeppni. Samrunareglum samkeppnislaga er m.a. ætlað að tryggja þetta. Rannsókn okkar sýnir að þessi samruni hefði verið skref í öfuga átt,˝