Miguel Blesa, sem var eitt sinn bankastjóri spænska bankans Caja Madrid, fannst með skotsár á bringunni í veiðihúsi í Cordóba á Spáni í gær, og er talið að hann hafi látist nær samstundis.
Málið er nú í rannsókn. Með Blesa í för voru vinir hans og veiðifélagar.
Blesa, sem fæddur var 8. ágúst 1947, var lengi vel meðal áhrifamestu mönnum í spænsku efnahagslífi, en eftir fjármálakreppuna á árunum 2007 til 2009 átti hann í vök að verjast.
Hann átti yfir höfði sér sex ára fangelsisdóm vegna kreditkortasvika en hafði áfrýjað dómnum.
Blesa var af mörgum sagður tákngervingur fyrir óhóf og dramb í fjármálakerfi Spánar sem leiddi til mikilla efnahagserfiðleika á Spáni.
Í umfjöllun breska ríkisútvarpsins BBC kemur fram að Blesa hafi verið dæmdur fyrir að svokölluð „svört kreditkort“ sem hann og aðrir stjórnendur og stjórnarmenn Caja Madrid bankans fengu og gátu með þeim eytt eins miklu og þeir vildu, en alls eyddu þeir 12 milljónum evra á árunum 2003 til 2012.
Caja Madrid, sem heitir núna Bankia, stóð höllum fæti eftir fjármálakreppuna og þurfti spænska ríkið að þjóðnýta hann, og tryggja að starfsemi hans stöðvaðist ekki. Öll spjót stóðu á Blesa á þessum tíma, og var óhætt að segja að hann hafi eignast marga óvini í hluthafahópi bankans.
Uppfært: Niðurstöður úr krufningu á líki Blesa bentu til sjálfsvígs, en þetta kom fram í nýrri tilkynningu frá sveitastjórn Andalúsíu.