Samkvæmt nýbirtri könnun MMR mælist Flokkur fólksins með 6,1% fylgi og mælist því stærri en Viðreisn og Björt framtíð. Fylgi við Flokk fólksins hefur rokið upp úr 2,8% í 6,1%.
Fylgi við Viðreisn minnkar á milli mánaða og er nú 4,7 prósent miðað við 5,3 prósent í síðasta mánuði. Það sama má segja um Bjarta framtíð sem er nú með 2,4 prósent fylgi miðað við könnun MMR í júlí. Björt framtíð var með 3,3 prósent í síðasta mánuði.
Könnunin fór fram dagana 18. til 21. júlí 2017 og sem fyrr mælist Sjálfstæðisflokkurinn með mest fylgi allra flokka í 29,3%. Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð sitja saman í samsteypustjórn undir forsæti Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins. Stuðningur við ríkisstjórnina mælist um 34,1%, en það er 0,2 prósentustigum hærra en í síðustu könnun.
Vinstri hreyfingin grænt framboð er næst stærsti flokkurinn með 20,4 prósent fylgi í könnun MMR. Píratar eru þar á eftir með 13,3 prósent.
Samfylkingin er með örlítið meira fylgi en fyrir mánuði síðan og mælist nú með 10,6% miðað við 9,1% síðast. Fylgi við framsóknarflokkinn minnkar aðeins og er nú 9,6%.
909 einstaklingar svöruðu könnuninni að þessu sinni, en úrtakið er handahófskennt úr Þjóðskrá.
Niðurstöður könnunar MMR
Flokkur | Fylgi í júlí | Fylgi í júní |
---|---|---|
Sjálfstæðisflokkurinn | 29,3% | 28,4% |
Vinstri grænir | 20,4% | 22,6% |
Píratar | 13,3% | 13,3% |
Samfylkingin | 10,6% | 9,1% |
Framsóknarflokkurinn | 9,6% | 10,2% |
Flokkur fólksins | 6,1% | 2,8% |
Viðreisn | 4,7% | 5,3% |
Björt framtíð | 2,4% | 3,3% |
Alþýðufylkingin | 1,0% | 0,4% |
Íslenska þjóðfylkingin | 0,8% | 0,2% |