Vestmannaeyjabær sækist eftir því að leigja bát til þess að styðja við samgöngur til og frá Heimaey yfir næstkomandi verslunarmannahelgi. Þetta kemur fram á vef Eyjafrétta í dag.
Ákvörðun Vestmannaeyjabæjar kemur fram í bréfi sem sent var á Samgöngustofu í dag. Í bréfinu kemur fram að bæjarfélagið hafi sérstakan áhuga á að gera tilraun með fólksflutninga um verslunarmannahelgi til þess að styðja við samgöngur á þeim tíma sem siglingar Herjólfs ráða illa við álagið.
Erindið er sent degi eftir að Samgöngustofa lagðist gegn beiðni Eimskips um að sigla ferjunni Akranes til Vestmannaeyja þessa helgi.
Samkvæmt Eyjafréttum er Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, mjög ósáttur við ákvörðun samgöngustofu, en í bréfi bæjarstjórnarinnar var sagt að ferjan sem hún íhugaði að leigja væri í öllum atriðum sambærileg við ferjuna Akranes. Því til rökstuðnings er bent á að hafsvæðið milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar sé skilgreint á sama hátt og hafsvæðið milli Reykjavíkur og Akraness.