Hækkun húsnæðisverðs í fjölbýli í Reykjavík hefur verið þrefalt hraðari en launahækkun undanfarna tólf mánuði. Þetta kemur fram í nýrri fréttatilkynningu frá íbúðalánasjóði.
Í tilkynningunni segir að verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hafi hækkað um 21,4% frá júní 2016, en á sama tíma hækkuðu laun aðeins um 7,3%. Að sögn Unu Jónsdóttur, hagfræðings hjá hagdeild Íbúðalánasjóðs, er æskilegt að þessar tvær stærðir haldist í hendur. Íbúðalánasjóður metur það svo að staða þeirra sem eru að reyna að komast inn á fasteignamarkaðinn sé umtalsvert verri í dag en fyrir ári síðan.
Þróun launa miðað við húsnæðisverð
Þrátt fyrir umrædda hækkun síðustu tólf mánaða virðist hafa hægt á henni allra síðustu mánuði. Í júní lækkaði verð á fjölbýli um 0,2% frá fyrri mánuði, en það var fyrsta lækkunin sem mælist i tvö ár. Á sama tíma jókst vísitala launa um 1% milli mánaða og gæti því verið að þessar stærðir færist nær hvorri annarri með hægari vexti fasteignaverðs.