Donald J. Trump, forseti Bandaríkjanna, segir Kínverja „ekkert“ hafa gert til að leysa úr vandanum í Norður-Kóreu. Þeir geti „auðveldlega“ leyst úr vandanum, en eyði tímanum í að tala um ekkert.
Þetta segir Trump á Twitter-svæði sínu, í röð af tístum sem hann birti í gær og í dag.
Spennan á Kóreuskaga er nú orðin áþreifanleg, en í yfirlýsingu frá Norður-Kóreu, vegna eldflaugaskots í síðustu viku, segir að landið búi nú yfir langdrægum flaugum sem geri því mögulegt að skjóta á Bandaríkin hvenær sem er.
Skotum Norður-Kóreu inn í japanska efnahagslögsögu hefur verið harðlega mótmælt, og hafa yfirvöld í Japan krafist þess að allt verði gert til að hindra frekari skot, og að hernaði verði beitt ef þess þarf.
Bandaríkin hafa stóreflt hernaðarumsvif sín á Kóreuskaga og hefur Trump sagt að herinn sé tilbúinn til þess að „taka ábyrgð“ á hættunni sem tilraunir Norður-Kóreu með langdrægar flaugar hafa skapað. Her Suður-Kóreu, dyggilega studdur Bandaríkjunum, hefur einnig eflt æfingar við landamæri Norður-Kóreu á undanförnum vikum.