Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir að hún hafi sýnt dómgreindarleysi „með því að flögra um þingsalinn stolt af þeirri hönnun sem ég stóð í og stolt yfir að vera kona í því hlutverki sem ég er og að leyfa mér að upphefja kvenleikann inni í þingsal sem svo ljósmyndari festi á filmu. Þau skilaboð eru fólki ekki greinilega ekki efst í huga, og þessi uppsetning því vanhugsuð því hún tengir við einkafyrirtæki. Ég biðst innilegrar afsökunar á því að hafa misboðið fólki með því. Síst af öllu vildi ég það. En ég held áfram að læra.“ Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu frá henni á Facebook.
Í morgun var greint frá því að Björt hefði verið mynduð í auglýsingaskyni í sal Alþingis fyrir breska tískuvörumerkið Galvan London. Í umfjöllun Fréttablaðsins um málið sagði að Sóla Káradóttir, listrænn stjórnandi Galvan London, og Björt séu vinkonur til margra ára. Undanfarið hafi birst margar myndir teknar víðs vegar á Íslandi á Instagram-síðu tískuvörumerkisins af íslenskum vinkonum Sólu í fatnaði frá Galvan London. Björt er þeirra á meðal. Í frétt blaðsins sagði Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, eftirfarandi um málið: „„Þetta kemur mér mjög á óvart, strangt til tekið er þetta ekki brot á reglunum en þetta er auðvitað dálítið óvenjulegt.“
Björt brást við á Facebook fyrr í dag og sagði í stöðuuppfærslu: „Obbosí. Næst verð ég með bindi til þess að hvetja karlkyns samþingmenn mína til að bera það í þingsalnum. Nú ansi hrædd um að einhverjum muni líka það. Nei, við frekari umhugsun. Það gæti auðvitað endanlega farið með feðraveldið eins og það leggur sig.“ Hún bætti síðar við færsluna og sagði að hún skildi vissulega að fólki þyki Alþingi vera helgur staður og að það vilji standa vörð um virðingu þess. „Ég hef reyndar oft verið í íslenskri hönnun þar áður og um það hefur verið fjallað, ( til dæmis á samfélagsmiðlum). Það var alls ekki mín ætlan að brjóta gegn því. Mér þykir miður ef þessi ljósmynd skapi slík hughrif.“
Björt setti síðan aðra stöðuuppfærslu um málið inn klukkan rúmlega 13. Þar segir: „Stóra kjólamálið er orðið dálítið mikið um sig. Ég viðurkenni það fúslega að mín fyrstu viðbrögð við því voru einmitt það- mjög viðbragðs og tilfinningatengd. Það getur pirrað ráðherra eins og hvern annan að undirtónn um klæðaburð sé alltumlykjandi.
En hann skiptir hér ekki höfuðmáli.
Ég biðst innilegrar afsökunar á því að hafa misboðið fólki með því. Síst af öllu vildi ég það. En ég held áfram að læra.“