Verðmæti vöruútflutnings á fyrri árshelmingi 2017 var það lægsta frá því á fyrri árshelmingi 2008, ef miðað er við vöruskipti eftir árshelmingum. Þetta kemur fram í tölum sem birtust á vef Hagstofu í dag.
Minni fiskur, meiri landbúnaður
Vöruútflutningur á fyrri árshelmingi ársins var um 244 milljarðar króna á gengi þessa árs, en það er 11% lækkun frá því á fyrri árshelmingi 2016. Stærsti þáttur lækkunarinnar er vegna sjávarafurða, en verðmæti þeirra dróst saman um 21,9% á meðan verðmæti landbúnaðarvara jókst um 24,8%. Útflutningur iðnaðarvara hélst nokkuð stöðug á tímabilinu, en verðmæti hans dróst saman um 3,1%.
Minni neysla
Vöruinnflutningur frá janúar til júní síðastliðinn nam 325 milljörðum, en það er 4% lækkun frá því á sama tímabili í fyrra. Stærsti þáttur lækkunarinnar er vegna færri aðkeyptra flugvéla, en einnig hefur verðmæti neysluvara dregist saman um 9,4% frá því í fyrra. Á móti jókst innflutningur á skipum, eldsneyti, fólksbílum og hrá-og rekstrarvörum.
Minnst frá hruni
Athygli vekur að ef litið er á árshelmingstölur vöruviðskipta sést að verðmæti vöruútflutnings hefur ekki verið minna síðan á seinni hluta ársins 2008, ef miðað er við gengi hvers árs. Innflutningur er einnig í hæstu hæðum og þannig hefur vöruskiptahalli heldur ekki verið meiri í þessari hagsveiflu. Á mynd hér að ofan má sjá þróun vöruviðskipta við útlönd frá árinu 2008.