Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, tók strangt til tekið ekki þátt í að brjóta reglur Alþingis þegar hún var mynduð í auglýsingaskyni í sal Alþingis fyrir breska tískuvörumerkið Galvan London. Þetta segir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis. Myndin var birt á Instagram-sóðu Galvan London.
„Þetta kemur mér mjög á óvart, strangt til tekið er þetta ekki brot á reglunum en þetta er auðvitað dálítið óvenjulegt,“ segir Helgi. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Þar segir að Sóla Káradóttir, listrænn stjórnandi Galvan London, og Björt séu vinkonur til margra ára. Undanfarið hafi birst margar myndir teknar víðs vegar á Íslandi á Instagram-síðu tískuvörumerkisins af íslenskum vinkonum Sólu í fatnaði frá Galvan London. Björt er þeirra á meðal.
Fréttablaðið hafði eftir Helga að samkvæmt reglum Alþingis væri myndatökur í einkaþágu óheimilar í þingsalnum hvort sem sé á þingfundi eða utan. Það væri óheimilt að taka ljósmyndir inn í salinn, úr hliðarsölum eða gangi, þar sem ljósmyndarar standa fyrir utan salinn sjálfan. Myndatökur í tengslum við blaða- eða sjónvarpsviðtöl, til að taka auglýsingamyndir og yfirleitt annars inni í sjálfum þingsalnum, væru sem sagt óheimilar. Myndatökur væru að öðru leyti heimilar í þinghúsinu og Skála Alþingis, svo og á skrifstofum þingmanna.
Blaðið hefur uppfært frétt sína, en nú segir að það sé heimilt að taka ljósmyndir inn í salinn.
Björt sagði í samtali við Fréttablaðið að hún hefði ekki brotið neinar reglur.