Flokkur fólksins myndi fá 8,4 prósent atkvæða og fimm menn kjörna á Alþingi ef kosið yrði í dag. Ríkisstjórnin nýtur einungis trausts 32,7 prósent kjósenda og flokkarnir sem að henni standa myndu ná 21 þingmanni inn á Alþingi miðað við fylgi þeirra í dag, eða ellefu færri en í kosningunum í fyrrahaust. Ríkisstjórnin er því kolfallin miðað við stöðuna eins og hún mælist í dag. Þetta kemur fram í nýrri könnun Gallup á fylgi stjórnmálaflokka sem greint var frá í kvöldfréttum RÚV.
Samkvæmt könnuninni er Sjálfstæðisflokkurinn stærsti flokkur landsins. 26,5 prósent segja að þeir myndu kjósa hann sem myndi þýða að flokkurinn fengi 18 þingmenn. Það er þremur færri þingmenn en flokkurinn er með í dag. 21,2 prósent segja að þeir myndu kjósa Vinstri græna sem myndi tryggja flokknum 14 þingmenn, eða fjórum fleiri en hann fékk í síðustu kosningum. Píratar myndu fá 12,9 prósent atkvæða (níu þingmenn), Framsóknarflokkurinn 11,4 prósent (átta þingmenn) og Samfylkingin 9,1 prósent (sex þingmenn). Samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn, Viðreisn og Björt framtíð, halda áfram að mælast með mjög lítið fylgi. Viðreisn myndi fá 5,3 prósent atkvæða ef kosið yrði í dag og rétt skríða inn á þing með þrjá þingmenn. Flokkurinn er með sjö þingmenn í dag. Staðan hjá Bjartri framtíð er enn verri. Einungis 3,7 prósent aðspurðra í könnun Gallup sögðust ætla að kjósa flokkinn. Það myndi þýða að Björt framtíð næði ekki inn manni á þing en flokkurinn hefur nú fjóra þingmenn.
Bragð mánaðarins í könnunum virðist vera Flokkur fólksins, undir forystu Ingu Sæland. Alls segjast 8,4 prósent að þeir myndu kjósa flokkinn sem myndi tryggja honum fimm þingmenn ef kosið er í dag.