Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, segir að neyðarlögin sem sett hafi verið á Íslandi 6. október 2008 hafi verið eignaupptaka á eignum skuldabréfaeigenda. Hann segir niðurstöðu Hæstaréttar frá því í október 2011, þar sem úrskurðað var að neyðarlögin stæðust eignarréttarákvæði stjórnarskrár, ekki vera rökstudda. Þetta kemur fram í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Jón Steinar sat í Hæstarétti á þeim tíma sem ofangreint má, var tekið fyrir og skilaði sératkvæði sem var á skjön við niðurstöðu meirihluta dómstólsins.
Með setningu neyðarlaganna voru innstæður gerðar að forgangskröfum og leikreglum þar með breytt eftir á. Það bitnaði mjög hart á skuldabréfaeigendum gömlu bankanna sem töpuðu gríðarlegum fjárhæðum á setningu þeirra. Jón Steinar skrifar greinina í dag til að svara pistli sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson stjórnmálafræðiprófessor skrifaði í sama blað um liðna helgi, og fjallaði um neyðarlánasetninguna. Í pistli sínum reyndi Hannes að rökstyðja setningu neyðarlaga með vísun í kaþólska heimspeki og lögmálið um tvennar afleiðingar. Þar kemur einnig fram að í nýrri bók Ásgeirs Jónssonar og Hersis Sigurgeirssonar sé sagt frá því að það hafi færst um tíu milljarðar evra með neyðarlögunum frá skuldabréfaeigendum til innstæðueigenda.
Jón Steinar segir neyðarlagasetninguna hins vegar vera afturvirka eignaupptöku. Hann spyr hvort það hefði ekki verið hægt að vernda innlán landsmanna og afla fjár til þess með almennari hætti en þeim að sækja það til afmarkaðs hóps manna. Það sé álitaefnið í málinu. „Svar er hvorki að finna í atkvæði meirihluta dómenda né hugleiðingu Hannesar. Ef þessi rök eru ekki til liggur málið þannig fyrir að fé var tekið með valdi af afmörkuðum hópi manna til að bjarga öðrum. Fyrir slíka háttsemi er fjártökumönnum stundum refsað!
Dómar byggjast á beitingu réttarheimilda. Dómsniðurstaða verður alltaf að njóta fullnægjandi rökstuðnings fyrir því að réttarheimildir leiði til niðurstöðunnar. Ef dómarar finna ekki gildan rökstuðning fyrir niðurstöðu sinni er það yfirleitt vegna þess að hann er ekki til. Þá kann það að gerast að komist sé að „æskilegri“ dómsniðurstöðu án rökstuðnings. Ætli þetta hafi verið þannig dómur? Allur almenningur á Íslandi fagnaði að minnsta kosti niðurstöðunni þó að rökin vantaði. Kannski viljum við Íslendingar helst að dómstólar landsins dæmi eftir einhverju öðru en gildum lagareglum ef það hentar okkur?“