Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, ætlar ekki að bjóða sig fram til Alþingis að nýju þegar yfirstandandi kjörtímabili lýkur. Skiptir þar engu hvort kjörtímabilið verði stutt eða langt. Hún segir það ekki hollt að vera of lengi á þingi og að enginn sé ómissandi, og sannarlega ekki hún. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Birgitta hefur setið á þingi frá árinu 2009. Fyrst var hún kjörin á þing fyrir Borgarahreyfinguna skammlífu sem hún tók þátt í að stofna en sat lengst af á því kjörtímabili undir merkjum Hreyfingarinnar. Birgitta kom að stofnun Pírata sem sitjandi þingmaður og leiddi flokkinn í kosningunum 2013, þegar hann fékk 5,1 prósent atkvæða og náði þremur mönnum á þing.
Birgitta hafði gefið það út fyrir síðustu kosningar að hún ætlaði sér að hætta fyrir þær. Henni snerist hins vegar hugur og segir að það hafi verið svo hún gæti miðlað þekkingu sinni í stórum hópi nýtta þingmanna Pírata sem skorti reynslu af þingstörfum. Píratar sigldu með himinskautum í könnunum í aðdraganda síðustu kosninga og mældust um tíma með hátt í 40 prósenta fylgi. Það dalaði þegar leið að kjördegi í október 2016 og þegar talið hafði verið upp úr kössunum kom í ljós að flokkurinn hafði fengið 14,5 prósent atkvæða og tíu þingmenn. Birgitta fékk stjórnarmyndunarumboð frá forseta Íslands í byrjun desember 2016 og reyndi að mynda fimm flokka ríkisstjórn með Samfylkingu, Vinstri grænum, Bjartri framtíð og Viðreisn, en án árangurs.
Í Fréttablaðinu er haft eftir Birgittu að starf þingmanns sé samfélagsþjónusta. Þegar upp verði staðið vonast hún til að hafa gert gagn. „Við lifum á ögrandi tímum í heiminum og brýnt að vera þar sem maður nýtist best. Starfið er gefandi en að sama skapi þykir mér erfitt að vera ekki í aðstöðu til að breyta hlutum sem þarf að breyta. Hefði enginn haft hugrekki til að setja á hitaveitu í stað olíukyndingar væru Íslendingar ekki með sömu lífsgæði. Ég er hræddust við stöðnun. Fólk þarf að hætta að vera hrætt við breytingar því lífið er samfelld breyting og ekki til neinn stöðugleiki. Stöðugleiki merkir stöðnun og allir sem horft hafa á vötn sem fá ekki ferskt vatn í sig horfa upp á lífríkið smám saman súrna og deyja.“