Bændasamtök Íslands hvetja félagsmenn sína til að semja við birgja sína og viðskiptabanka vegna mikilla afurðaverðslækkana. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Bændasamtakanna fyrr í dag.
Í tilkynningunni segir að boðaðar verðlækkanir á afurðum feli í sér meira en þriðjungs tekjuskerðingu samhliða hærri fjármagnskostnaði sökum dráttar á greiðslum. Verði hún að veruleika muni afurðaverð fara aftur á þann stað sem það var fyrir áratug síðan, sem að mati samtakanna sé „ekkert minna en stórfelld kjaraskerðing.“
Samkvæmt tilkynningunni hvetur stjórn BÍ félagsmenn sína til að „ræða strax við sína birgja og viðskiptabanka um þessa alvarlegu stöðu og leita með þeim lausna.“
Enn fremur sögðust bændasamtökin munu veita bændum allan þann stuðning sem þeim sé fært í kjarabaráttu þeirra, en samtökin hafa rætt við stjórnvöld um að draga úr afurðaframleiðslu til lengri tíma. Að lokum segir að stjórn BÍ að skynsamlegast sé að grípa inn í markaðinn ef aðstæður sem þessar koma upp, líkt og tíðkast hefur í samanburðarlöndum Íslands.