Utanríkisstefna Íslands varð mildari í garð Rússlands árið 2015 eftir að hagsmunaaðilar höfðu beitt stjórnvöldum þrýstingi, en síðan þá hefur Ísland ekki tekið þátt í yfirlýsingum ESB um viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum vegna Úkraínu. Þetta eru niðurstöður fræðigreinar sem mun birtast á næstu vikum í tímaritinu Global Affairs.
Herferð SFS
Höfundar greinarinnar eru Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við HÍ, og Pétur Gunnarsson, stjórnmálafræðingur frá London School of Economics, en samkvæmt þeim mátti greina stefnubreytingu hjá íslenskum stjórnvöldum á seinni hluta ársins 2015.
Ári fyrr, þann 14. mars 2014, höfðu Bandaríkin og Evrópusambandið komið á viðskiptaþvingunum við Rússland vegna innrásarinnar í Úkraínu og hernámi Krímskaga. Ísland tók þátt í þvingununum samdægurs, en Gunnar Bragi Sveinsson, þáverandi utanríkisráðherra, sagði þá ákvörðun aðallega hafa verið tekna vegna þrýstings frá Bandaríkjunum og Evrópusambandinu.
Þann 13. ágúst 2015 svaraði svo rússneska ríkisstjórnin ákvörðun Íslands með refsiaðgerðum, en í þeim fólst meðal annars bann á innflutningi á fiski frá Íslandi. Í kjölfarið lögðust hagsmunahópar útgerðanna, með Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) í fararbroddi, í umfangsmikla fjölmiðlaherferð gegn viðskiptaþvingunum við Rússland.
Ekki hægt að elta ESB blindandi
Svo virðist sem herferðin hafi haft töluverð áhrif á framgang stjórnvalda, en þrátt fyrir að Ísland hafi ekki dregið sig formlega úr viðskiptaþvingununum er ríkisstjórnin nú tregari til að styðja yfirlýsingar ESB gegn Rússlandi.
Árið 2014 tók Ísland þátt í nær öllum yfirlýsingum Evrópusambandsins um utanríkismál, en þá sat ríkisstjórnin aðeins hjá í einni yfirlýsingu. Árin 2015 og 2016 sat Ísland hins vegar hjá í 20 yfirlýsingum, þar af tengdust 8 þeirra málefnum Úkraínu.
Yfirlýsingar íslenskra stjórnmálamanna breyttust einnig, en snemma árs 2016 sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, Ísland ekki bara geta „elt ESB og tekið þátt í viðskiptaþvingunum blindandi.“ Um svipað leyti lýsti þáverandi sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, yfirstandandi þvingunum sem „táknrænum“.
Í greininni er einnig haft eftir háttsettum embættismanni Evrópusambandsins að stefnubreyting Íslands í utanríkismálum „kæmi á óvart“ og að „tekið væri eftir henni“ í Brussel. Hins vegar bætti hann við að þátttaka Íslands í viðskiptaþvingununum væri það eina sem skipti máli, en Evrópusambandið kynni að meta hlut Íslands í þeim.