Nokkur tilboð bárust í 30 prósent hlut HS Orku í Bláa lóninu sem voru yfir 90 milljónum evra, eða 11 milljörðum króna. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Alterra Power, stærsti eigandi HS Orku sem skráð er á hlutabréfamarkað í Kanada, sendi frá sér í gær.
Í tilkynningunni segir enn fremur að einkaviðræður hafi farið fram við þann bjóðanda sem þótti álitlegastur, og hafi boðið um 90 milljónir evra í hlutinn. Greint hefur verið frá því í íslenskum fjölmiðlum að sá bjóðandi var bandaríski fjárfestingarsjóðurinn Blackstone. Í tilkynningu Alterra segir að þótt félagið hafi verið tilbúið að selja þessum aðila hlutinn þá hafi meðeigandi þess, íslenska félagið Jarðvarmi sem á 33,4 prósent hlut í HS Orku, hafnað því. Samþykki Jarðvarma, sem er í eigu 14 íslenskra lífeyrissjóða, hafi verið nauðsynlegt vegna hluthafasamkomulags um minnihlutavernd sem gert var þegar Jarðvarmi keypti upphaflega hlut í HS Orku sumarið 2011. Alterra Power segir að söluferlinu á hlutnum í Bláa lóninu sé nú lokið en að það verði mögulega endurvakið síðar.
Davíð Rúdólfsson, stjórnarformaður Jarðvarma, sagði við Morgunblaðið í vikunni að félagið hafi metið það sem svo að tilboðin sem fyrir lágu hefðu ekki endurspeglað virði Bláa lónsins. „Við teljum það verðmætara en þau tilboð sem komu fram.“ Heildarvirði Bláa lónsins samkvæmt tilboðunum sem fyrir lágu var 37 milljarðar króna.
Auglýstur til sölu í maí
HS Orka sendi frá sér tilkynningu um miðjan maí síðastliðinn þar sem fram kom að það ætlaði að kanna mögulega sölu á hlut sínum í Bláa lóninu, í heild eða að hluta. Stöplar Advisory sáu um að ræða við hugsanlega fjárfesta og stýra ferlinu fyrir hönd HS Orku, en í tilkynningunni kom fram að þessi ákvörðun væri tekin í kjölfarið á sýndum áhuga á hlutnum í Bláa lóninu.
„HS Orka hefur verið hluthafi í Bláa Lóninu frá upphafi og hefur stolt stutt við vöxt þess. Bláa Lónið er nú með umfangsmikinn rekstur, dafnar og er enn í verulegum vexti. Þrátt fyrir að um einstaka eign sé að ræða og þá fellur starfsemi Bláa Lónsins ekki að kjarnastarfsemi HS Orku sem er framleiðsla og sala endurnýjanlegrar orku. Því ákváðum við að hefja þetta ferli,“ var haft eftir Ásgeiri Margeirssyni, forstjóra HS Orku, í fréttatilkynningunni.
Hagnaður HS Orku í fyrra nam 2,7 milljörðum króna og heildartekjur 7,1 milljarði króna. Heildareignir félagsins voru bókfærðar á tæplega 50 milljarða króna. Óhætt er því að segja að rekstur félagsins sé í góðu horfi þessa dagana.
Hluturinn í Bláa lóninu var metinn á 1,8 milljarða króna í ársreikningi sem þýðir að félagið var metið á um sex milljarða króna samkvæmt þeim mælikvarða. Ljóst er, miðað við tilboð Blackstone, að virði Bláa lónsins er verulega vanmetið í bókum HS Orku.
Einungis arðgreiðslan til hluthafa Bláa lónsins nam 1,4 milljarði, vegna ársins 2015. Vegna síðasta árs nam arðgreiðslan 1,5 milljarði króna. Því hefur Bláa lónið greitt næstum þrjá milljarða króna í arð á tveimur árum.