Verð á hótelgistingu hefur hækkað um meira en 60 prósent hérlendis í erlendri mynt á tveimur árum. Sú hækkun er vel umfram styrkingu á gengi krónunnar og því útskýrir hún hækkunina ekki nema að hluta. Stóran hluta hækkunar megi rekja til hærri gjaldskrár hótela og hótelgisting hækkað langt umfram þróun verðlags. Þetta er haft eftir Gústaf Steingrímssyni, hagfræðingi í hagfræðideild Landsbankans, í Fréttablaðinu í dag.
Þar segir hann að stóraukin eftirspurn ferðamanna eftir gistirými sé sennilegasta ástæða þess hve mikið þjónusta hótela og gistiheimila hafi hækkað í krónum talið á undanförnum árum.„Menn virðast hafa verið í það góðri stöðu, og gistinýtingin er það há, að þeir hafa getað leyft sér að hækka verðið,“ segir Gústaf í samtali við Fréttablaðið. Hann nefnir aukin launakostnað sem aðra breytu sem gæti skýrt miklar hækkanir.
Einnig er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Þar er bent á að vegna meiri fjölgunar erlendra ferðamanna en sem nemur fjölgun gistinátta hefur gistináttafjöldinn á hvern ferðamann hérlendis dregist talsvert saman. Fjöldi gistinátta á hvern ferðamann hafi numið 1,7 í júní og dróst saman um ríflega níu prósent frá sama tímabili í fyrra. Gústaf er einnig viðmælandi í umfjöllun Viðskiptablaðsins og segir þar að gistinætur á mann hafi verið að dragast saman í fjórtán mánuði í röð. „Meðaltal gistinátta hefur verið talsvert lægra á fyrstu sex mánuðum þessa árs en á sama tíma í fyrra.“ segir Gústaf. Hann segir verðþróun á gistingu í erlendri mynt skipa þar mestu. Verðið á fyrstu sex mánuðum ársins sé þriðjungi hærra en á sama tíma í fyrra mælt í erlendri mynt og 62 prósent hærra en á sama tímabili árið 2015. Áhrif frá heimagistingu (Airbnb) gætu einnig spilað inn í. Ferðamenn hafi mætt styrkingu krónunnar með því að draga úr dvalarlengd í stað þess að hætta við að koma til landsins.